„Hvað þolir ekki dagsbirtu?“
Eigandi Kaffitárs ósátt við leynd sem hvílir yfir ferli í FLE.
„Ég sætti mig við að verða undir í samkeppni, en ekki að leikreglur í svo mikilvægri keppni séu bæði óskýrar og ógegnsæjar,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, í aðsendri grein í Markaðnum í dag. Fyrr í mánuðinum var fyrirtækinu tilkynnt að það yrði ekki fyrsti valkostur þegar kæmi að samningaviðræðum við Isavia um veitingarekstur í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Engar skýringar né samanburður
Í aðsendu greininni segir Aðalheiður m.a. að hún hafi óskað eftir upplýsingum um hverjir tækju þátt í samkeppninni, sundurliðun stigagjafar og við hvað væri stuðst við stigagjöf. Svarið hafi borist henni á ensku, eingöngu um stigagjöf Kaffitárs og engar skýringar né samanburður. Aðalheiður segir að leynd skapi tortryggni, ýti undir tilfinningu um að ekki sé farið að settum reglum og að eitthvað þurfi að fela. „Trúverðugleika skortir í þessari samkeppni. Jafnvel Samtök iðnaðarins mega ekki sjá samkeppnislýsinguna. Hvað þolir ekki dagsbirtu?“ segir Aðalheiður ennfremur í greininni.
Íslensk fyrirtæki í FLE
Eftir samtöl við marga segir Aðaleiður að útlit sé fyrir að gerður verði stór samningur við alþjóðlegt stórfyrirtæki sem reki tæplega þrjú þúsund verslanir og sérhæfi sig í rekstri í flugstöðvum. Frá því megi ekki segja fyrr en samningar hafa verið undirritaðir. „Ég tel mikilvægt að fyrirtæki sem stunda rekstur í FLE séu íslensk og það sé skammsýni þegar fulltrúar ríkisins halda að slíkt skipti ekki máli. Alþjóðleg fyrirtæki greiða skatta þar sem þeir eru lægstir og skapar það þeim samkeppnisforskot,“ segir Aðalheiður og bætir við: „Íslensk fyrirtæki eru fullfær um að koma íslenskum áherslum á framfæri. Ef rétt reynist, er það sóun að færa erlendu stórfyrirtæki á silfurfati þessa verðmætu auðlind sem ferðamaðurinn er“.