Hvað rís við Fishershús?
Spennandi hugmyndir á borðinu
Reiturinn við hið glæsilega Fishershús í Reykjanesbæ mun líklega fá verulega andlistlyftingu á næstu misserum að því gefnu að fjárfestar sýni því áhuga að byggja upp á svæðinu. Reykjanesbær mun ekki leggja fjármagn í uppbygginguna.
Guðlaugur Sigurjónsson hjá Umhverfis- og skipulagssviði birti í dag teikningar á Facebook þar sem gert er m.a. ráð fyrir hóteli, verslun, skrifstofum, kaffihúsi og torgi fyrir aftan Fishershúsið. Guðlaugur segir að aðeins sé um hugmyndir að ræða á þessu stigi en þær eru unnar með Keflvíkingnum Jóni Stefáni Einarssyni arkitekt. Hugsunin er að búa til tækifæri fyrir fjárfesta til þess að byggja upp á reitnum en núna er fyrst og fremst verið að kalla fram viðbrögð.
Unnið hefur verið að því að lappa upp á Fishershús að undanförnu og hefur það vakið verðskuldaða athygli. Reiturinn fyrir aftan húsið er spennandi kostur og þar getur í raun hvað sem er risið að sögn Guðlaugs, hvort sem um ræðir íbúðir, verslanir, veitingahús eða hótel. Þær byggingar yrðu þó aldrei hærri en Fishershús. Guðlaugur segir að einnig sé verið að kanna möguleika á uppbyggingu á gamla Keflavíkurtúninu sem stendur aftan við Gömlu búð. Það sé þó enn á frumstigi.
Eins og sjá má er nægt rými á gamla Keflavíkurtúninu.