Hvað olli 344 milljóna króna rekstrarhalla í Garði?
Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs tók í gær fyrir fyrirspurn L-lista um Framtíðarsjóð Sveitarfélagsins Garðs. L-listinn spyr hvað olli því að 344 milljónir voru í rekstrarhalla á árunum 2009 og 2010 hvaða rekstrarliðir fóru svona mikið fram úr fjárhagsáætlun þessara ára? Voru einhverjir hlutir sem bættust við útgjöld bæjarins sem voru ekki inná fjárhagsáætlun fyrir þessi ár? Hvernig á að standa við 2. grein í samþykkt fyrir framtíðarsjóð Sveitarfélagsins Garðs, að framtíðasjóðurinn haldi verðgildi sínu til framtíðar? Hverjir eru óháðir sérfræðingar, spyr L-listinn, sem fóru yfir nauðsyn ráðstöfunar úr framtíðarsjóð til hagsbóta fyrir íbúa sveitarfélagsins á árunum 2009 og 2010 og hvar er álitið? Samkvæmt 5. grein samþykktar fyrir framtíðarsjóð Sveitarfélagsins Garðs. Eins þykir L-lista afar dularfullt að ekki séu nýttir skýringarreitir við úttektir og millifærslur á bankabók framtíðarsjóðs. Óskar L-læistinn eftir að fá sundurliðaðar skýringar á úttektum úr sjóðnum.
Spurningum L-listans var svarað lið fyrir lið í bæjarráði í gær en svörin eru:
Svar við fyrsta lið:
Í sameiginlegri vinnu bæjarstjórnar Garðs var á mörgum fundum við undirbúning fjárhagsáætlunar og útkomuspár 2010 farið yfir ástæður rekstrarhalla áranna 2009 og 2010. Þar kom fram hvaða liðir fóru fram úr áætlun og einnig skýringar við útgjöldum sem bættust við. Oddur G. Jónsson frá KPMG sat tvo fundi með bæjarfulltrúum og fór yfir öll þessi mál og þar gáfust tækifæri til spurninga. Einnig var ítarleg yfirferð á Íbúafundi þann 15. desember sl. þar sem yfir 80 íbúar mættu og hlýddu á skýringar Odds G. Jónssonar sem voru mjög nákvæmar og settar fram á auðskiljanlegan hátt.
Svar við öðrum lið:
Í annarri grein samþykkta fyrir Framtíðarsjóð Sveitarfélagsins Garðs segir:
„Tilgangur sjóðsins er varsla og ávöxtun fjármuna af sölu eignarhluta sveitarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja hf. Markmiðið er að tryggja raunvexti fjármuna sjóðsins á hverjum tíma og verði nýttir í rekstur og framkvæmdir sveitarfélagsins til þess að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. markmið sjóðsins er að tryggja honum sem besta ávöxtun miðað við tiltölulega hóflega áhættu og að stofnframlag skv. 3 gr. haldi verðgildi sínu til framtíðar“.
Bæjarstjórn samþykkti að nýta bæði vexti og verðbætur sjóðsins til uppbyggingar í bæjarfélaginu eins og bæjarfulltrúum er kunnugt um.
Samkvæmt þessu samkomulagi hefur verið unnið og samningur við Sparisjóðinn í Keflavík, nú SpKef sparisjóð um ávöxtun sjóðsins gilt frá upphafi.
Bæjarstjórn Garðs hefur síðan tekið ákvarðanir um að nýta hluta af stofnframlagi sjóðsins eins og skýrt hefur verið út fyrir bæjarfulltrúum og íbúum í Garði á tveimur íbúafundum. Farið var yfir þessi atriði með Oddi G. Jónssyni frá KPMG og hann útskýrði með mjög skiljanlegum hætti á íbúafundi.
Nú 4 vikum síðar óskar L-listann eftir útskýringum sem þegar hafa verið skýrðar í margra vikna vinnu við sameiginlega gerð útgönguspár fjárhagsáætlun 2010 og fjárhagsáætlunar 2011. Þar sem var farið yfir þessi atriði og skýrt út og sýnt framá hvernig fjármunum sjóðsins voru nýttir m.a. til byggingu Gerðaskóla, fráveituframkvæmda og landakaupa.
Svar við þriðja lið:
KPMG endurskoðendur bæjarins og Oddur G. Jónsson eru sérfræðingar Sv. Garðs í málefnum Framtíðarsjóðs og hafa þeir ekki gert athugasemdir við ákvarðanir bæjarstjórnar um meðferð Framtíðarsjóðs.
Svar við fjórða lið:
L-listinn ásakar með þessu starfsmenn á bæjarskrifstofunum um að eitthvað sé athugavert í störfum þeirra og óskar eftir að fá sundurliðaðar skýringar á meðferð þeirra með fjármuni úr Framtíðarsjóði. Það eru alvarlegar ásakanir L-listans á hendur starfsmönnum að störf þeirra og meðferð fjármuna sé afar dularfull og ekki séu gefnar skýringar á úttektum á bankabók Framtíðarsjóðs. Allar millifærslur af bankabók Framtíðarsjóðs fara á aðalreikning Sv. Garðs og því ekki þörf á nákvæmari skýringu á millifærslunum. Engar athugasemdir hafa komið fram við endurskoðun ársreikninga bæjarsjóðs vegna þessara millifærslan eða vegna framkvæmd þeirra. Bæjarfulltrúa L-listans stendur til boða að fara yfir allar reiknisfærslur Framtíðarsjóðs og meðferð þeirra fjármuna sem reyndar hafa verið samþykktir og útskýrðir fyrir fulltrúa listans á vinnufundum, bæjarráðs- og bæjarstjórnarfundum og nú síðast á íbúafundi 15. desember sl.
Bæjarráð Garðs harmar aðdróttanir L-listans að starfsheiðri starfsmanna á bæjarskrifstofunni.
Bókun N-lista
N listinn tekur undir fyrirspurnir L listans og minnir á bókun N listans frá því 29. 12.10 þar sem segir m.a. „Það hlýtur að vera krafa bæjarbúa að fá skýringar og hlutlausa greiningu á stöðu og hreyfingum bæjar- og framtíðarsjóðs á tímabili þar sem alvarlegur viðsnúningur verður í þeim efnum og að bæjarfulltrúar dragi af því nauðsynlegan lærdóm“ Forsenda þess að eftirlit bæjarfulltrúa með fjármálum sé virkt er að þeir fái reglulega upplýsingar um fjármál sveitarfélagsins. N listinn kallar eftir viðbrögðum um hvernig gangi að kanna tillögu N listans frá því 29.12.10 þar sem bæjarstjóra var falið að kanna kostnað á tillögunni og leggja átti fyrir bæjarráð sem fyrst.