Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hvað er flugeldasalinn þinn að gera fyrir þig?
Laugardagur 31. desember 2011 kl. 12:40

Hvað er flugeldasalinn þinn að gera fyrir þig?

Áður en björgunarsveitarfólkið í Björgunarsveitinni Suðurnes ætlaði í jólafrí hafði það farið í 65 útköll á árinu sem er að líða. Fjölmörg þessara verkefna voru erfið, mann- og tímafrek. Þau hafa reynt á bæði líkama og sál en í þremur leitum sem Björgunarsveitin Suðurnes fór í á árinu fannst sá sem leitað var að látinn.

Langflest útköllin eru í Reykjanesbæ þar sem björgunarsveitarfólk hefur verið að hjálpa bæjarbúum við hin ýmsu mál. Þá hefur ófærð í bænum útheimt mikla vinnu. Á áttunda tug manna og kvenna hefur komið að verkefnum björgunarsveitarinnar á árinu, hvort sem það eru útköll, æfingar, fjáröflun eða bara fundir. Á bak við þetta starf eru tæplega 17.000 vinnustundir á árinu og þá er ekki búið að telja með þau útköll sem voru um jólin og það starf sem á sér stað í flugeldasölu nú á milli hátíða.

Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, segir að nú biðli björgunarsveitin til bæjarbúa og óski eftir stuðningi í formi þess að fólk kaupi flugeldana af björgunarsveitinni og styðji þannig við áframhaldandi starf öflugrar björgunarsveitar í bæjarfélaginu. Í ár eru fjáraflanir björgunarsveitarinnar þrjár. Langstærst er flugeldasalan og það er hún sem ræður því starfi sem Björgunarsveitin Suðurnes býður upp á. Hinar tvær fjáraflanirnar eru sala á Neyðarkallinum og sala á Sjómannamerkinu.

Núna um jólin þurfti Björgunarsveitin Suðurnes að leysa á annan tug verkefna tengd veðri og ófærð í Reykjanesbæ og því fékk björgunarfólkið litla hvíld eða samveru með sínum nánustu um jólin. Þetta sama fólk er núna komið á bakvið búðarborðið í flugeldasölunni en sveitin er með tvo flugeldamarkaði í Reykjanesbæ. Stóran markað við Holtsgötu í höfuðstöðvum sveitarinnar og annan við Reykjaneshöllina.
„Núna þurfum við að hugsa svolítið um samfélagið okkar og velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé vilji til þess að hér starfi áfram öflug björgunarsveit með þann búnað sem þarf. Við viljum því að fólk velti upp þeirri spurningu, hvað gerir flugeldasalinn fyrir þig?“

Á flugeldasölunni eru allar gömlu góðu vörurnar, árgerð 2011, og einnig fjöldi nýrra hluta sem allir eiga það sameinginlegt að geta búið til mikla ljósadýrð. „Það er til gríðarlegt magn og mikið úrval, þannig að allir eiga að fá eitthvað við sitt hæfi,“ segir Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarveitarinnar Suðurnes í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024