Hústökuköttum vísað út
Lögreglan á Suðurnesjum leysti upp gleðskap katta í mannlausu húsi í bænum um hádegisbilið í gær. Íbúar í nágrenninu höfðu séð nokkra ketti fara inn og út um glugga á húsinu, sem hefur staðið mannlaust um skeið.
Er lögregla kom á staðinn voru þar fyrir 2-3 kettir sem höfðu gert sig heimakomna og létu fara makindalega um sig á sófa sem skilinn hafði verið eftir í húsinu. Að sögn lögreglu var partíið leyst upp, köttunum vísað á dyr og öllum gluggum lokað og læst kirfilega til að koma í veg fyrir frekara veisluhald af þessu tagi, segir í frétt á mbl.is.