Húsnæðisþjónusta við hælisleitendur í góðum höndum
„Í ljósi umræðu um húsnæðismál hælisleitanda í Reykjanesbæ og nauðsyn þess að leitað sé allra leiða til aðhalds og sparnaðar í opinberum rekstri, bæði ríkis og sveitarfélaga, leggjum við fulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar til að teknar verði upp viðræður við hið opinbera hlutafélag Kadeco um lausn á húnæðismálum hælisleitenda í Reykjanesbæ,“ segir í breytingartillögu sem Hannes Friðriksson lagði fram við fundargerð fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudagskvöld.
Í breytingatillögunni segir einnig: „Kadeco, sem alfarið er í eigu ríkisins, hefur yfir miklu magni vandaðs íbúðarhúsnæðis að ráða auk mismunandi búsetuforma sem hentað gætu fjölbreyttum aðstæðum þeirra skjólstæðinga er hér um ræðir um leið og þeir aðlagast íslensku samfélagi.
Með samningum við Kadeco yrði stigið skref lausnar þeim bráðavanda er nú eru í húnsæðismálum hælisleitenda og jafnframt stigið skref til hagræðingar um leið og hluti af ónýttu húnæði á Ásbrú yrði komið í not. Öllum til hagsbóta.
Jafnframt er lagt að til gengið verði til samninga við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að gerð verð úttekt á því starfi og áhrifum er samningur Reykjanesbæjar við Útlendingastofnun hefur haft bæði hvað varðar hinn félagslega þátt og fjárhagslega.
Það er mikilvægt að slík úttekt fari fram svo unnt verði fyrir bæjaryfirvöld að taka upplýsta ákvörðun hvað varðar framhald um þjónustu við hælisleitendur í Reykjanesbæ, nú þegar flest bendir til að er að verkefnið stefnir í að verða viðameira en upphaflega var lagt upp með.
Gengið verði til samninga við Útlendingastofnun um greiðslu þess kostnaðar er af slíkri úttekt hlýst“.
Undir þetta skrifa Hannes Friðriksson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson og Kristinn Þór Jakobsson
Í framhaldinu bókaði Árni Sigfússon eftirfarandi: „Málefni hælisleitenda og húsnæðisþjónusta við þá er í góðum höndum félagsþjónustu Reykjanesbæjar, sem hefur hlotið lof fyrir vandað starf í hvívetna. Það er ekki skynsamlegt að okkar mati að hlutast til um þá vinnu sem nú er í gangi, og varðar húsnæðismál, með tillögu sem þessari og ekki ástæða til kaupa á úttekt stofnunar vegna þess. Bæjarstjórn treystir áfram félagsþjónustu Reykjanesbæjar til að finna bestu lausnir í þessum efnum og skoða alla valkosti sem bjóðast í húsnæðismálum m.a. utan Reykjanesbæjar“.
Tillaga minnihlutans var felld með 7 atkvæðum meirihlutans gegn 4 atkvæðum flutningsmanna.