Húsnæðismál FS óviðunandi og geta ekki verið svona áfram
Geymslum breytt í kennslustofur og sumarhús notað sem skólastofa – Fjölbrautaskóla Suðurnesja naumt skammtað og fær lægstu framlög á nemanda
„Svona getur þetta ekki haldið áfram. Það er vonlaust,“ segir Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, í viðtali við Víkurfréttir. Skólameistari FS mætti með ákall og hvatningu til bæði þingmanna og sveitarstjórnarmanna um húsnæðismál skólans á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu helgi. Síðast voru byggðar kennslustofur við skólann þegar íbúafjöldi á Suðurnesjum var helmingi minni en hann er í dag.
Á fundinum fór Kristján yfir byggingarsögu skólans en síðustu ár hefur vantað upp á að byggingamagn hafi fylgt fjölgun nemenda. Síðasta bygging sem reis var aðstaða fyrir nemendur en kennslustofur vantar orðið tilfinnanlega og nú er svo komið að kennsla fer m.a. orðið fram í gámum og sumarhúsi á lóð skólans.
Þú nefndir á fundinum miklar áskoranir í húsnæðismálum Fjölbrautaskóla Suðurnesja?
„Já, það er rétt. Það er tími til kominn og það er bráðnauðsynlegt að ráðist verði í úrbætur á húsnæði skólans. Íbúafjöldi á svæðinu hefur nær tvöfaldast frá því að álma 3, sem er síðasta viðbygging við skólann, var tekin í notkun. Við höfum verið að taka við tveim brautum frá Keili, þannig að það þýðir að við erum að verða eini framhaldskólinn hér á svæðinu. Það er alveg öllum ljóst að það er brýnt að við verðum að fá aukið húsnæði. Við erum farin að byggja okkar eigið húsnæði með því að nýta sumarhúsið sem við byggjum til kennslu og raða gámum hérna fyrir framan til að geta mætt þeim nemendafjölda sem sækir um hjá okkur.“
Þú vilt meina að staðan sé óviðunandi eins og hún er í dag?
„Hún er það, algjörlega. Hugmyndirnar frá ráðuneytinu eru sem betur fer góðar. Það á að bæta úr aðstöðu verknáms. En við erum búin að vekja máls á því lengi að það þarf samhliða að bæta úr brýnni þörf fyrir aukið rými fyrir almenna kennslu.“
Allt stopp í ráðuneytinu
Í máli skólameistara kom fram að lítli hreyfing er á málum skólans í stjórnkerfinu.
„Það virðist vera að þetta sé stopp inni í fjármála- og efnahagsráðuneyti og það séu fjórir skólar sem séu undir í þessum fyrsta fasa og það verði allt leyst í einu. Við getum ekki beðið svo lengi. Þetta er búið að vera í vinnslu frá því í maí að þessu virtist vera skilað inn til ráðuneytisins og þegar maður er að spyrja, þá er þetta allt í athugun, komið vel á veg, en ekkert gerist, því miður.“
Skólameistari hefur ítrekað bent á að Fjölbrautaskóla Suðurnesja sé naumt skammtað og fái skólinn lægst fjárframlög á hvern nemanda. En hafa skólayfirvöld í Fjölbrautaskóla Suðurnesja fengið skýringar á því hvers vegna svo er?
„Það er eitthvað sem við höfum aldrei fengið almennilega skýringu á. Og þegar þeir voru orðnir dálítið pirraðir og þreyttir á þessu nöldri í okkur, þá var svarið að við kynnum ekki að reikna. Hluti af því er að við búum við frekar lítið húsnæði og það þýðir að framlag okkar per húsnæðislið er lægra en annarra. Að mínu mati getur það ekki skýrt allan þennan mun. Það þarf hjá öllum, ekki bara okkur, að fá aukið fé inn ef við eigum að geta menntað verk- og starfsnámsnema almennilega.“
Breyta geymslum í kennslustofur
Þú nefndir í þínu erindi margkonar áskoranir skólans. Til að mynda eru um fimm prósent nemenda af erlendu bergi brotnir.
„Já og þeim hefur farið fjölgandi undanfarið. Við viljum þegar við erum að taka við slíkum nemendum þjónusta þá vel. Við erum með hundrað nemendur sem eru að taka sérstaka íslenskuáfanga sem eru fyrir erlenda nemendur. Við settum upp sérstaka braut til að geta tekið við þeim. Ef við eigum að gera þetta vel, erum við ekki að hrúga þeim öllum eða 25-30 í hvern hóp. Við verðum að hafa í huga að að þessir nemendur eru ekki allir mælandi á enska tungu. Það er arabíska, spænska og hvaðeina, úrdí og bara nefndu það. Við getum þess vegna ekki verið með nema svona tíu til tólf í hópi ef við eigum að sinna þeim almennilega. Það viljum við reyna að gera. Þess vegna þurfum við fleiri stofur, litlar stofur. Það höfum við verið að gera með því að breyta geymslum í kennslustofur.“
Þetta á líka við starfsbrautirnar?
„Þar höfum við verið með áttatíu nemendur. Þar erum við sömuleiðis að búa dálítið þröngt. Við vildum svo sannarlega geta búið betur að þeim. Þetta eru þeir nemendur sem munu alltaf þurfa okkar aðstoð og við viljum hjálpa þeim til að ná þroska og efla fyrir vonandi sjálfstæða búsetu og þátttöku á almennum vinnumarkaði. Það er markmiðið á starfsbrautinni.“
Sumarhús notað sem kennslustofa
Þannig að það er brýn þörf strax á að leysa húsnæðismál skólans?
„Já, við sjáum það ef við horfum upp á G-álmuna sem við köllum í gríni gámana tvo sem eru nýttir allan daginn eins og sumarhúsið sem einnig er nýtt allan daginn undir kennslu. Það leit lengi vel út í vor að við yrðum að bæta þriðja gámnum við. Það sem setur okkur í þessa erfiðu stöðu er að það hafa verið mygluvandræði hjá grunnskólunum á svæðinu, þannig að allt leiguhúsnæði hér í nágrenninu er upptekið fyrir grunnskólana, eðlilega. Við vorum í vor að spyrjast fyrir og reyna að athuga hvort einhverstaðar væri laust húsnæði en það var ekki. Þess vegna enduðum við á því að taka sumarhúsið okkar og breyta því í kennslustofu. Það er því hagkvæmt ef skólarnir fara bara í að byggja sínar eigin stofur. Grínlaust þá vonum við að til þess komi ekki og þess vegna erum við með þetta ákall og hvatningu til bæði þingmanna og sveitarstjórnarmanna að svona getur þetta ekki haldið áfram. Það er vonlaust,“ sagði Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, í samtali við Víkurfréttir.