Húsið svart af sandi
Tíundi apríl er svartur dagur hjá Árna Björgvinssyni og eiginkonu hans, Sigrúnu Stefánsdóttur, sem búa að Hvammsgötu 18 í Vogum. Hann var svartur því húsið þeirra var svart af sandi að utan og einnig var fínn sandur kominn inn um allt. Einnig var garðurinn við húsið fullur af sandi og ástandið er ennþá slæmt.
„Það var óskemmtileg lífsreynsla að sjá þetta. Við vorum ekki heima þegar þessi ósköp gengu yfir. Þegar við komum heim var ekkert að sjá fyrr en við beygðum hér heim að húsinu. Það fyrsta sem ég hugsaði var, er ég eitthvað að villast?,“ segir Árni.
Heimili Árna og Sigrúnar stendur á fallegum stað við mikla sandfjöru í Vogum. Sandurinn hefur alltaf verið til friðs en fjörukamburinn hafði verið rofinn vegna fráveituframkvæmda og ekki hafði verið gengið frá rofinu. Þar sést greinilega hvar sandurinn hefur fokið upp skarðið í kambinum og sjónarvottur lýsir því þannig að þegar sandfokið stóð yfir hafi hreinlega verið svartur sandveggur sem barði á heimili þeirra hjóna. Vandinn virðist hafa verið mjög einangraður því aðeins virðast fáein hús hafa orðið fyrir sandblæstrinum.
Árni hefur búið í Vogum í 23 ár og þar af sjö ár að Hvammsgötu 18 og aldrei orðið var við þetta áður. Íbúi í næsta nágrenni sem er fæddur þar og uppalinn hafði aldrei séð þetta gerast áður og Árni segist hafa fleiri vitnisburði um að þau ósköp sem áttu sér stað 10. apríl hafi aldrei gerst áður. Sandinn skóf svo aftur aðfararnótt páskadags en þá ekki í eins miklu magni en nóg til þess að talsvert af sandi safnaðist fyrir í innkeyrslunni og garðinum framan við húsið, sem hafði verið þrifið vandlega eftir síðasta hvell.
Sigrún segir fína rifu hafa verið á gluggum og það hafi verið nóg til þess að sandurinn komst inn um alla íbúðina og var um öll gólf.
Árni segist hafa sent athugasemdir til bæjarfulltrúa og bæjarstjóra í Vogum til að vekja athygli á að vegna skarðsins í fjörukambinum hafi hann fengið yfir heimilið mikið magn af sandi sem verður ekki betur lýst en með meðfylgjandi ljósmyndum. Hann segist hins vegar ekki hafa fengið nein viðbrögð frá bæjarstjórninni. Vandamálið virðist ennþá vera viðvarandi. Það má sjá í umhverfinu þar sem sandinn hefur skafið og vind þarf lítið að hreyfa svo sandurinn sé ekki kominn að stað.
Árni er ekki sáttur við þau viðbrögð sem umkvörtunarefni hans hefur fengið hjá bæjarfulltrúum eða bæjarstjóra, því þar segist hann engin viðbrögð hafa fengið.
„Ég setti mig einnig í samband við bæjarverkstjórann á mánudagsmorgninum [11. apríl sl.] rétt uppúr klukkan átta. Hann sagðist ekki geta komið vegna funda þann morgun. Hann sást keyra hér framhjá eftir hádegið á mánudeginum og svo ekkert meir. Þá fór nú aðeins að renna í skapið hjá mér og ég hringdi aftur. Þá kom hann eftir hádegið á þriðjudeginum og mokaði útúr innkeyrslunni og var upp undir fjórar klukkustundir við mokstur því þetta var svo mikið af sandi,“ segir Árni.
Hann segir sandfokið hafa skemmt lakk á bíl sem hann var með í innkeyrslunni. Samkvæmt mati frá Bílasprautun Suðurnesja er tjónið á bílnum a.m.k. 150.000 krónur en hann var málaður á síðasta ári. Íbúð þeirra Árna og Sigrúnar er svokölluð Búmanna-íbúð og eftir samráð við Búmenn hafi verið fenginn verktaki til að þrífa húsið og lóðina enda ástandið þar þannig að sögn Árna að öll vit hafi fyllst af sandi og ryki um leið og farið var að hreyfa við sandinum.
Árni segir að eftir ítrekaðar óskir hafi verið komið með eitt hlass af grús og það sett í skarðið sem rofið var í fjörukambinn. Það dugaði þó ekki til að loka skarðinu og því segir Árni ennþá vera hættu á að sandinn skafi þaðan upp úr fjörunni. Hann veit ekki hver framvinda málsins verður en í þessari viku mætti Árni á lögreglustöð til að gefa skýrslu um það tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Sandinn sem þegar hefur blásið upp úr fjörunni þarf að fjarlægja og vonast Árni til að farið verið í róttækar aðgerðir í kjölfar þess að vakin sé athygli á málinu hér á síðum Víkurfrétta.