Húsið er bylting, nú er það okkar að standa okkur
- segir Páll Guðlaugsson, þjálfari Keflavíkur„Þetta hús er bylting. Það er engin spurning. Kefl-víkingar eiga örugglega eftir að hagnast á tilkomu þess. Æfingaaðstaðan er náttúrlega allt önnur en við eigum að venjast. Það er munur að vera hér inni á þessu fína gervigrasi - í þessu líka fína logni maður!“Já, það lá vel á nýjum þjálfara Keflvíkinga þegar við spjölluðum stuttlega við hann í Reykjaneshöllinni. Brassarnir á leiðinni og aðspurður um þá vildi Páll lítið segja. „Ég er bjartsýnn“, sagði hann og undir það tók Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildarinnar. „Þeir verða allir hér. Við vorum að hugsa um að láta einn þeirra fara til annars liðs en erum hættir við það. Þeir munu allir verða hér í Keflavík“, sagði Rúnar. Það er því óhætt að segja að leikmannahópurinn verði stór og sterkur og ekki laust við að örli á bjartsýni um betri knattspyrnutíð í Keflavík.