Húsfyllir á íbúafundi
Húsfyllir var í Duushúsum í kvöld á íbúafundi sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar hafði boðað til vegna þeirrar ólgu sem ríkir um viðskipti bæjarins og Geysir Green Energy um HS Orku og HS Veitur. Á fundinum fór ekkert á milli mála að skiptar skoðanir eru á þessum viðskiptum. Samningur GGE og Reykjanesbæjar mun koma fyrir bæjarstjórn á morgun þar sem hann verður væntanlega samþykktur.
Framsögu á fundinum fluttu Árni Sigfússon, bæjarstjóri, Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE, Júlíus Jónsson, forstjóri HS og Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans, sem gagnrýnt hefur harðlega þessi viðskipti.
Árni Sigfússon reið á vaðið og fór yfir sjónarmið Sjálfstæðismanna í málinu. Hann sagði það rangt að verið væri að einkavæða auðlindina eins og haldið væri fram. Þá síður væri um að ræða nýtt REI mál. Með þessum viðskiptum væri verið tryggja eign almennings á auðlindum þar sem Reykjanesbær væri að eignast auðlindirnar á Reykjanesi og í Svartsengi. Nauðsynlegt væri að fá fjámagn inn í landið til að koma þjóðinni úr stöðnun og atvinnuleysi. Með þessum samningum myndi HS Orka sjá um virkjunarþáttinn áfram og tryggja orkusamninga við Norðurál. Reykjanesbær fengi gjald fyrir nýtinguna til næstu 65 ára.
Guðbrandur Einarsson sagði illskiljanlegan þann flýti sem einkennt hefði allt málið. Gert væri ráð fyrir því að þetta stóra mál yrði afgreitt á skemmri tíma en það tæki bæjarstjórn að afgreiða umsókn á framlengingu vínveitingaleyfis fyrir skemmtistað í bæjarfélaginu. Slík vinnubrögð væru ávísun á tortryggni. Þeir sem keyrðu málið með slíku offorsi myndu ekki ná fram neinni sátt með slíku vinnulagi. Hann sagði það liggja fyrir að Sjálfstæðismenn ásamt GGE hefðu sameiginlega unnið að málinu án vitneskju eða nokkurrar aðkomu annarra bæjarfulltrúa eða eigenda HS Orku eða HS Veitna. Sú skýlausa afstaða sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefði tekið með Geysi Green Energy væri ein og sér verðugt rannsóknarefni sem þyrfti að fara í saumana á.
Nánar verður fjallað um fundinn á vf.is og í Víkurfréttum á fimmtudaginn.
---
VFmynd - Frá íbúafundinum í Duushúsum í kvöld.