Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Húsfyllir á heiðurstónleikum Ómars Jóhannssonar
Föstudagur 13. febrúar 2004 kl. 00:04

Húsfyllir á heiðurstónleikum Ómars Jóhannssonar

Húsfyllir var í Stapa í kvöld þegar þar voru haldnir tónleikar til styrktar og heiðurs Ómari Jóhannssyni, revíuhöfundi og sagnamanni. Ómar hefur átt í harðri baráttu við krabbamein síðustu mánuði. Nokkrir vinir Ómars vildu sýna honum samhug í verki og úr varð að haldnir voru tónleikar í Stapa í kvöld. Fluttur var söngur úr revíum eftir Ómar, auk þess sem listamenn komu fram með frumsamið efni eða eftir aðra. Hápunktur kvöldsins var þó þegar Ómar kom sjálfur á svið og flutti nýtt efni í anda revía hans. Annars vegar var það bragur um golfara og hins vegar þann aðila sem hingað til hefur sloppið við að vera skotspónn Ómars í revíum, Hjálmar Árnason alþingismann. Bragurinn er svona:

 

 

 

 

 

 

ÞINGMAÐURINN.

Það var einu sinni þingmaður
sem fékk á heilann bíl,
Heilann bíl, bíl, bíl, heilann vetnisknúinn bíl.
Og kennslukonan, konan hans
hún sagði honum að semja um bílinn stíl,
semja stíl, stíl, stíl um vetnisknúinn bíl.

Svo fóru þau í bíltúr,
út á Snæfellsnes,
Snæfellsnes, nes, nes, og um ég þetta les.
Og hittu gamlan félaga,
sem er nú alveg spes,
alveg spes, spes, spes, er nú alveg spes.

Sá maður var að mylja
og meitla niður grjót
niður grjót, grjót, grjót og rörabútadót.
Svo verður þetta sýnt
við næsta ættarmót,
ættarmót, mót, mót, næsta Johnsen ættarmót.

En Örlygsson úr Njarðvík
Vildi sýna með,
sýna með, með, með, það hefði aldrei skeð.
Því að raða legokubbum
er ansi illa séð,
illa séð, séð, séð, við listamannatréð.


Ómari var fagnað vel og lengi. Talið er að um 400 manns hafi verið í Stapanum í kvöld og stóð fólkið allt upp og fagnaði Ómari með lófaklappi. Að endingu kastaði Ómar persónulegri kveðju á alla með handabandi eða kossi.
Ómar sagðist eftir skemmtunina í kvöld hafa skemmt sér konunglega. Hann var ánægður að sjá hversu margir hafi mætt í Stapann. Það féllu gleðitár en Ómar er sannfærður um að sá hlýhugur sem honum var sýndur í kvöld hafi gefið sér aukinn styrk í baráttunni.

 

Myndirnar: Ómar og Guðný Rannveig kona hans á góðri stund í kvöld. Ein myndin sýnir þann fjölda sem var í Stapanum í kvöld. Á neðstu myndinni er Þorsteinn Joð Vilhjálmsson (Viltu vinna milljón) að heilsa upp á Ómar. Ómar komst sem kunnugt er í stólinn hjá Þorsteini um árið og var meðal þeirra fyrstu sem nældu sér í milljón í þessum vinsæla sjónvarpsþætti.

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024