Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Húsfyllir á borgarafundi í Stapa um atvinnumál: Starfsmenn HSS með blóðrauð blys
Fimmtudagur 7. október 2010 kl. 18:45

Húsfyllir á borgarafundi í Stapa um atvinnumál: Starfsmenn HSS með blóðrauð blys

Húsfyllir var á opnum borgarafundi Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi í Stapa sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld. Í ályktun fundarins sem var samþykkt samhljóða er krafist samstöðu ríkisstjórnar, sveitastjórna og atvinnurekenda um hnökralausa atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja stóðu eftir fundinn í röð á miðri Njarðarbrautinni og lýstu upp svæðið með rauðum blysum en sem kunnugt er af fréttum er framundan tæplega 25% niðurskurður þar á bæ sem mun þýða að stofnunin mun lamast og 60-80 manns munu missa atvinnuna.

Ályktun Borgarafundar Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi
í Stapa, Reykjanesbæ, 7. október 2010

Borgarafundur í Stapa og Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi senda út ÁKALL UM SAMSTÖÐU!

Fundurinn krefst samstöðu ríkisstjórnar, sveitastjórna og atvinnurekenda um hnökralausa atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Gerð er krafa til samstöðu þvert á mörk sveitarfélaga, stjórnmálaflokka og atvinnugreina. Búseta og vinna er grundvöllur samfélagsins - við viljum og þurfum nauðsynlega vel launuð störf í sem flestum atvinnugreinum! Velferð er ekki sjálfgefin – hún byggir á grunni heilbrigðs atvinnulífs.

Reyknesingar hafa fengið sig fullsadda af óeiningu ráðamanna, atvinnuleysi, gjaldþrotum, nauðungarsölum, endalausum töfum og aðgerðarleysi. Nú þarf að hafa skýra sýn og taka á málum með festu. Nauðsynlegt er að greiða leið ákveðinna atvinnusköpunarverkefna í stjórnkerfinu svo Reyknesingar og landsmenn allir fái notið þrotlausrar atvinnuuppbyggingar síðustu ára. Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld og hagsmunaaðilar styðji við þá gríðarlegu vinnu sem lögð hefur verið í uppbyggingu atvinnuverkefna á svæðinu.  Það verða allir að leggjast á eitt við að koma hjólum atvinnulífsins af stað! Það er ekki einkamál Reyknesinga.

SAR leggur til að hið opinbera reyni eins og frekast er unnt að vernda grunnþjónustuna. Betra er að niðurskurður fari fram í opinberri stjórnsýslu sem vaxið hefur um helming á áratug.

Reyknesingar eru að eiga við risavaxið vandamál.  Atvinnuleysi á Reykjanesi hefur verið það mesta á landinu og hér hafa flest nauðungaruppboð átt sér stað. Reyknesingar eru ekki einungis að eiga við hrunið sjálft heldur einnig fortíðarvandann frá 2006 þegar herinn fór og á annað þúsund störf gufuðu upp. Af svæðinu hafa milljarðar runnið í ríkiskassann annarsvegar frá sölu eigna á varnarliðssvæðinu og hinsvegar frá sölunni á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja á sama tíma og atvinnuleysi hefur stigmagnast.

SAR beinir því til stjórnvalda að tekið verði á skuldavanda heimilanna þegar í stað. Fyrsta skrefið er að stöðva nauðungarsölur og gjaldþrotameðferðir þar sem því verður við komið. Fara heldur þá leið að gera skuldir upp með veðsettum eignum og afskrifa afganginn, skuldurum verði síðan boðið að leigja eignirnar jafnvel með föstum kauprétt. Tómar byggingar út um allt hjálpa engum. Fjölskyldur og einstaklingar sem losnað hafa undan skuldaklafa eru líklegri til að skapa verðmæti og stuðla að betra efnahagslífi svo ekki sé talað um mannúðarsjónarmið.

Fyrir þessu munu Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi berjast í framtíðinni og veita aðilum bæði aðstoð og aðhald.

Fyrst og síðast er þess krafist að atvinnurekendur og hið opinbera gangi í þessi mál og klári þau þegar í stað. Ef engin hreyfing kemst á hlutina innan þriggja vikna mun verða gripið til róttækari aðgerða.

STÖNDUM SAMAN!

Samþykkt á fundi í Stapa, Reykjanesbæ 7. október 2010