Hundurinn Hunter enn ófundinn
– Tveir flugmiðar frá Icelandair í fundarlaun.
Hundurinn Hunter er enn ófundinn. Hans hefur verið leitað síðan í morgun þegar hann slapp úr búri á Keflavíkurflugvelli. Hunter er Border Collie og var að koma með flugi frá Bandaríkjunum og á leið til Svíþjóðar með millilendingu á Keflavíkurflugvelli.
Þegar verið var að flytja búrið með Hunter á milli flugvéla datt það á hliðina og opnaðist. Hunter varð strax frelsinu feginn og hljóp út af flugvallarsvæðinu.
Hundurinn Hunter komst undir girðinu og sást síðast við ratsjárbygginguna á Miðnesheiði, nærri Sandgerðisvegi.
Fram kom hér á vf.is fyrr í dag að Icelandair býður þeim sem finnur hundinn tvo flugmiða í verðlaun fyrir að koma hundinum til lögreglunnar á Suðurnesjum. Þeir sem vita hvar Hunter er niðurkominn geta haft samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420 1800.