Hundur beit innbrotsþjóf
Íbúi í umdæmi Lögreglunnar á Suðurnesjum vaknaði upp við það í fyrrinótt að óboðinn gestur var kominn hálfur inn um gluggann á svefnherberginu. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að hundur húsráðandans hafi ákveðið að taka á móti innbrotsþjófinum með sínum hætti. Hundurinn náði taki á honum og beit hann í hendurnar. Þjófurinn lét sig hverfa í snatri eftir að hafa losað sig frá hundinum. Lögreglan rannsakar málið.