Hundur á flótta undan lögreglu
Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook að lögreglumenn sinntu hávaðaútkalli nú helgina þar sem kvartað var undan hundsgelti eftir miðnætti. Þegar lögreglu bar að garði í fjölbýlishús hér á Suðurnesjum kom styggur á hundinn þegar hann varð lögreglu var og lagði á flótta undan laganna vörðum. Flótti hundsins minnti frekar á atriði úr bíómynd en raunveruleika því til mikillar undrunar tók hundurinn upp á því að stökkva niður af efri hæð fjölbýlishúsnæðisins og lenda á bifreið. Að því búnu tók hann til fjögurra fóta og hvarf út í myrkrið og fannst hann ekki við eftirgrennslan.
Lögreglumenn á vettvangi töldu ekki ástæðu til að veita hundinum eftirför, enda ekki grunaður um refsivert athæfi né eftirlýstur. Eigandi hundsins var látinn vita af athæfinu og að mögulega þyrfti hann á dýrlæknisaðstoð að halda þegar hann skilaði sér heim.
Bifreiðin sem hundurinn lenti á var ekki mikið tjónuð en eiganda hennar var tilkynnt um málavexti.