Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 18. júní 2003 kl. 09:15

Hundruð íbúða hugsanlega rifin

Ef bandaríski herinn hverfur af landinu mun hann annað hvort rífa byggingar sínar á Keflavíkurflugvelli eða bjóða íslenskum stjórnvöldum þær til afnota. Íbúðahúsnæði fyrir um fjögur þúsund manns er til staðar á Keflavíkurflugvelli, auk ýmiss konar þjónustu, veitingastaða og tómstundaaðstöðu. Fari svo að varnarliðið dragi verulega saman eða hverfi á brott mun aðstaða fyrir umfangsmikla þjónustu og búsetu standa auð.Að sögn Sturlu Sigurjónssonar, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, má finna fordæmi fyrir því að Bandaríkjaher láti Íslendingum eftir íbúðir, í braggahverfum borgarinnar eftir seinni heimsstyrjöldina.

Hann segir engar áætlanir uppi um að íslensk stjórnvöld taki við íbúðum og þjónustuaðstöðu á Keflavíkur- flugvelli, enda sé róið að því að ná samningum um áframhaldandi veru varnarliðsins.

Greint hefur verið frá því að líkur séu á því að Bandaríkjamenn dragi flugsveitina og fjölskyldur frá Keflavíkurflugvelli. Um 400 íbúðir fyrir fjölskyldufólk eru í 15-20 ára gömlum fjölbýlishúsum neðst á svæði varnarliðsins. Íbúar byggðarlagsins eru um fjögur þúsund og hefur þeim fækkað um 1.700 manns frá 1994.

Ljóst er að íbúðaverð á Suðurnesjum fellur ef íbúðirnar fara inn á íslenska fasteignamarkaðinn. ,,Ef íslenska ríkið býður skyndilega fram hundruð íbúða mun verðið hrynja, sérstaklega ef þær fást ódýrt. Menn yrðu að hugsa það mjög vandlega ef það færi af stað," segir Guðlaugur H. Guðlaugsson fasteignasali.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir Suðurnesjamenn líta varnarliðssvæðið hýru auga. ,,Við hljótum að líta á þetta sem tækifæri þó fullsnemmt sé að fullyrða með hvaða hætti þau verði nýtt. Það er búið að leggja hundruð milljóna í uppbyggingu á þessu svæði og það er til fyrirmyndar."

Fréttablaðið greindi frá í morgun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024