Hundruð hvala léku listir fyrir utan Keflavík
Þeir skiptu hundruðum hvalirnir sem léku listir sínar utan við Keflavík og Njarðvík í gær, laugardag. Sjónarvottar segja að á milli 100 til 200 dýr hafi verið í mikilli vöðu sem virtist vera í miklu æti skammt frá höfninni í Keflavík á tólfta tímanum í gærmorgun.
Blaðamaður Víkurfrétta varð vitni að hvalavöðunni, sem í voru smáhvalir, líklega hnýðingar. Sjórinn var kraumandi þar sem þeir voru að veiðum. Því miður náðu Víkurfréttir ekki myndum af vöðunni en upplifunin var ótrúleg. Vaðan hvarf hins vegar jafn skjótt og hún birtist og fór lengra frá landi.
Í allan gærdag (laugardag) mátti sjá smáhvali stökkvandi á stóru svæði, séð frá Keflavík alveg inn undir Voga og út fyrir Helguvík. Það má eiginlega segja að sjórinn hafi verið svartur af hval allan gærdaginn. Þá sáust einnig stærri dýr eins og hrefnur og hugsanlega einnig hnúfubakur.
Hvalaskoðunarskipið Elding kom á svæðið eftir hádegið í dag og um borð var fjöldi fólks sem fylgdist með miklu hvalalífi á Stakksfirðinum.
Víkurfréttir náðu þó nokkrum myndum af hvölunum í gær, þó svo stóra vaðan hafi sloppið við myndatöku. Meðfylgjandi myndir voru teknar frá svæðinu við Keflavíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn.
Undanfarnar vikur hefur verið mikið hvalalíf í Faxaflóa og sést til smáhvala í stórum hópum allt frá Garðskaga og langt inn fyrir Voga. Hafa borist fjölmargar hringingar til okkar á ritstjórn Víkurfrétta vegna þessa. Hvalirnir eru hins vegar óútreiknanlegar skeppnur og virðast oft hverfa jafn skjótt og þær birtast.
Við hvetjum lesendur til að láta okkur vita, sjáist til hvala nærri landi, enda myndefni sem margir lesendur vf.is hafa gaman af að skoða.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Tvær hrefnur á "leiðinni í land" við Njarðvíkurhöfn.
Hvalaskoðunarskipið Elding var hlaðið hvalaskoðunarfólki utan við Njarðvík síðdegis.
Að neðan má sjá bakugga á einum af þeim hundruðum hnýðinga sem voru "við leik og störf" á Stakksfirði allan laugardaginn.
Svona "splash" sinnum 200 varð þess valdandi að sjórinn varð eins og suðupottur.