Hundrað sóttu um í tölvuleikjagerð hjá Keili - nýtt nám til stúdentsprófs
Um eitthundrað nemendur sóttu um í nám í tölvuleikjagerð í nýjum Menntaskóla Keilis á Ásbrú og var tæplega helmingur þeirra sem komst að. Fyrsta skólasetning nýrrar námsbrautar Menntaskólans á Ásbrú fór fram í gær að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Þar komu saman nemendur í fyrsta árangi tölvuleikagerðarbrautar skólans en nýbreytni er að boðið sé upp á slíkt nám á framhaldsskólastigi hér á landi. Alls 44 nemendur hefja námið nú og er kennsla hafin. „Tilurð þessarar nýju brautar er gott dæmi um árangurríkt samstarf stjórnvalda, menntakerfisins og atvinnulífsins og vil ég þakka Keili, Samtökum iðnaðarins, Samtökum leikjaframleiðanda og Samtökum verslunar og þjónustu fyrir árangursríka samvinnu við það að koma brautinni á laggirnar. Með þeirri ákvörðun að veita fjármagni til þessa verkefnis standa vonir til þess að með auknu námsframboði á framhaldsskólastigi finni fleiri nemendur nám við hæfi að loknum grunnskóla. Það er fátt eins nauðsynlegt fyrir okkur sem samfélag en að hver og einn fái notið sín í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ sagði ráðherra af þess tilefni.
Námið byggir á kjarna- og valfögum sem einskorðast ekki aðeins við forritun heldur taka á fjölbreyttum þáttum sem skapandi starfs leikjagerðarfólks, s.s. hönnun, tónlist, hljóðupptökum, verkefnastjórnun og heimspeki o.fl. Þá er starfsnám og verkefna- og hópavinna mikilvægur hluti námsins.
„Við Menntaskólann á Ásbrú ætlum við, í sönnum Keilisanda - að vanda okkur við að viðhafa nútímalega vinnuhætti nemenda og kennara. Við „flippum“ kennslunni, við eflum ábyrgð nemenda, við ýtum undir að nemendur fari út fyrir rammann í verkefnum sínum og leiti sér þekkingar á fleiri stöðum en kennslubókum, við tökum ekki lokapróf, námsmat verður fjölbreytt og oftar en ekki til leiðsagnar. Við stöndum saman að því að þróa kennsluhætti á þann hátt sem nýtist nemendum, sem eflir áhuga þeirra, kveikir neista og eflir tengsl þeirra innbyrðis. Nemendur fá bæði að vinna í skapandi greinum og í fjölbreyttum greinum sem efla þau í tölvuleikjagerð og eru mikilvægur liður í því að nemendur okkar þrói með sér hæfileika til þess að geta orðið góðir liðsmenn í tölvuleikjagerðarteymi í framtíðinni,“ sagði Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ásbrú við formlega opnun námsbrautarinnar.
Nanna sagði í einnig að lögð yrði áhersla á að emendur efli með sér færni í samskiptum. „Það vill svo til að í heimi tölvuleikjagerðar skiptir teymisvinnan og verkefnastjórnin miklu máli en það vill líka svo til að í heiminum almennt skipta samskipti máli. Við þurfum alls staðar sem við komum að vinna með fólki og eiga samskipti. Við munum gefa nemendum okkar færi á að vinna í sínum samskiptamálum. Við viljum strax frá fyrsta degi að nemendur líti svo á að það sé ákveðin vegferð að verða flinkur í samskiptum. Við getum öll bætt okkur og unnið í sjálfum okkur hvað það varðar.“
Jóhann Friðrik Friðriksson, nýr framkvæmdastjóri Keilis, Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og Hjálmar Árnason, fráfarandi framkvæmdastjóri Keilis klipptu á borða við upphaf náms í tölvuleikjagerð. VF-myndir/pket.
Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ásbrú við formlega opnun námsbrautarinnar.