Hundaeigendur setji „stykkin“ í sérstakar tunnur á Garðskaga!
Umhverfismál á Garðskaga hafa verið tekin föstum tökum. Mikið hefur verið lagt í fegrun svæðisins. Nýverið var opnuð ný hreinlætisaðstaða og nú hefur sorptunnum verið komið fyrir með reglulegu millibili. Þá er eftirtektarverð nýjung komin á Garðkaga. Sett hefur verið upp tunna ætluð hundum!Í tunnuna eiga að fara „stykkin“ sem hundar skilja eftir sig og ætlast er til að eigendur hreinsi upp eftir ferfætlingana og setji „afurðirnar“ í sérstökum plastpokum í hundakassann. Það er nefnilega ætlast til þess að fólk geti notið útiverunnar á Garðskaga án þess að vaða hundaskít upp í klof. Vonandi að hundaeigendur nýti sér þessa nýjung sem hundakassarnir eru.