Huldumaður vill borga hráefniskostnað vegna bananabrauða
Jóhanna Ósk Gunnarsdóttir, 35 ára gamla ofuramman úr Sandgerði, sem bakaði 160 bananabrauð fyrir Fjölskylduhjálp Íslands, hefur fengið boð um það að einstaklingur, sem vill ekki koma fram undir nafni, sé tilbúinn að borga útlagðan kostnað hennar vegna hráefniskaupa hennar í brauðbaksturinn.
Jóhanna Ósk segir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Það var Pressan.is sem fékk tölvupóst frá einstaklingi sem bauðst til að greiða kostnaðinn við baksturinn en Pressan vitnaði um helgina í umfjöllun Víkurfrétta um framtak Jóhönnu Óskar.
Jóhanna Ósk er ekkert alltof viss um það hvort hún eigi að þiggja greiðsluna og segir að hún og móðir sín, Sigurbjörg Eiríksdóttir, hafi sameinast um hráefniskaupin. Jóhanna spyr þó vini sína á Facebook hvort hún eigi að taka við styrknum. Flestir eru á því að hún geri það og noti þá peninginn til að kaupa meira hráefni og baka meira fyrir Fjölskylduhjálpina.
Tengd frétt: Bakar brauð fyrir Fjölskylduhjálp Íslands