Hulda fékk gullverðlaun á ráðstefnu uppfinningamanna
Hannaði heilsukodda sem einstaklingar raða sjálfir saman eftir eigin þörfum
Hannaði heilsukodda sem einstaklingar raða sjálfir saman eftir eigin þörfum
Hulda Sveinsdóttir fékk nýverið gullverðlaun á stórri sýningu og ráðstefnu uppfinningamanna, INPEX, sem fram fór í Pittsburgh, Bandaríkjunum. Hulda, sem er búsett í Njarðvík, fékk verðlaunin fyrir heilsukoddann Keili sem fékk mikla athygli á ráðstefnunni og er er hannaður til að mæta þörfum hvers einstaklings fyrir sig.
„Þetta er gríðarlega mikil viðurkenning fyrir mig og gefur mér byr undir báða vængi,“ segir Hulda. Víkurfréttir heimsóttu Huldu á heimili hennar í Njarðvík við sjávarsíðuna í vikunni. Hún og eiginmaður hennar hafa gert upp gamalt fjós við Sjávargötu sem nú er orðið sérlega glæsilegt. Auk þess að búa í húsinu þá reka þau gistiheimili í húsinu fyrir ferðamenn þannig að gestagangur í húsinu er mikill yfir sumartímann.
Hulda lenti í slysi fyrir nokkrum árum og hefur verið þjökuð af eymslum í hásli allar götur síðan. Slysið varð til þess að hún fann aldrei nægilegan stuðning við háls og höfuð, hvorki með hefðbundnum koddum né heilsukoddum. Það var til þess að Hulda fór að þróa sína eigin lausn enda átti hún erfitt með svefn vegna verkja.
„Góður koddi er af mörgum talin ein helsta forsenda góðs svefns og því var mikið í húfi. Eftirköst slysins ollu mér talsverðurm aukaverkjum í hálsi og höfði,“ segir Hulda. „Ég er nú búin að hanna kodda sem á sér enga hliðstæðu. Heilsukoddinn Keilir gæti orðið sú lausn sem stuðlar að betri svefni og jafnframt linað þjáningar margra þeirra sem í dag glíma við eftirköst háls- og bakmeiðsla.“
Nánar verður rætt við Huldu í næsta tölublaði Víkurfrétta sem kemur út á fimmtudag.