Hugsið ykkur öll þau líf sem þið tókuð þátt í að bæta
Styrmir Barkarson stóð fyrir ánægjulegri söfnun nú í desember þar sem hann kom m.a. jólasveininum til aðstoðar með skógjafir, auk þess að safna fyrir jólagjöfum fyrir börn og unglinga og ýmislegt fleira. Styrmir hefur tekið saman smá pistil um verkefnið þar sem kemur fram að auk allra jólagjafanna sem bárust hafi fólk jafnframt lagt verkefninu til um hálfa milljón króna. Pistillinn er hér að neðan:
„Smá samantekt á gjafaverkefninu:
Eins og þið vitið lögðu mörg fyrirtæki flottar gjafir í púkkið fyrir börnin hér á Suðurnesjum, og þær skiptu hundruðum. En til viðbótar komu peningarnir. Í heildina lagði fólk fram 496.600 krónur og fyrir þá peninga keypti ég gjafir, nesti, föndur og dundur sem léttu jólin fyrir um eitt hundrað fjölskyldur hér á Suðurnesjum.
Spááááum aðeins í því hverju þið komuð til leiðar sem tókuð þátt í þessu með framlögum og útbreiðslu boðskapsins! Hugsið ykkur öll þau líf sem þið tókuð þátt í að bæta.
Gjafirnar voru svo margar og veglegar að allir sem leituðu til Velferðarsjóðs Suðurnesja um aðstoð fengu gjafir fyrir börnin í sinni fjölskyldu og það var meira að segja afgangur.
Af þeim afgangi fóru gjafir til barna og unglinga sem sóttu vinajól Hjálpræðishersins á aðfangadag, en þar komu saman um 80 manns.
Og þrátt fyrir það var ENN AFGANGUR, sem verður notaður inn í árið, því skorturinn hættir ekki þó jólin líði hjá. Fólk getur leitað aðstoðar hjá Velferðarsjóði varðandi afmælisgjafir og þær góðu gjafir sem þið hjálpuðuð til við að kaupa bíða þess þá að gleðja börn í enn lengri tíma en þið sáuð kannski fyrir ykkur.
Ég lýk þessu ári sáttur og óska ykkur öllum velfarnaðar á nýja árinu.
Setjum okkur það áramótaheit að hugsa vel hvert um annað. Það þarf engin stórvirki til að bæta líf fólksins í kringum okkur. Hjálparhönd sem okkur munar lítið um getur breytt heilmiklu fyrir þann sem þiggur. Brosum meira hvert til annars. Gefum okkur tíma til að spjalla við þá sem standa okkur nær og jafnvel líka þá sem við þekkjum ekki.
Og föðmumst meira - það gerir öllum gott.“