Hugsanleg sameining Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar
Samin hefur verið áætlun um möguleika á sameiningu Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar. Sameiningaráætlunin var kynnt samtímis á fundi stjórnar Hitaveitunnar og í bæjarráði Hafnarfjarðar í síðustu viku. Áætlunin kemur í framhaldi af viljayfirlýsingu aðila fyrir tveimur árum og segir Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, að stefnt sé að því að fá skýrar línur í málið fyrir næstu áramót og að í samrunaáætluninni sé gert ráð fyrir að sameinað fyrirtæki taki til starfa 1. janúar á næsta ári. Þetta kemur fram á mbl.is.Ákvarðanir um samruna eru háðar samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og eigenda Hitaveitu Suðurnesja sem eru sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þá þarf einnig að koma til samþykki Alþingis þar sem Hitaveita Suðurnesja starfar eftir sérstökum lögum.Ætlunin er að sameina fyrirtækin undir nafninu Hitaveita Suðurnesja hf. Júlíus Jónsson segir að Hitaveita Suðurnesja sé metin á um 8,3 milljarða króna og Rafveita Hafnarfjarðar á um 1,6 milljarð króna. Gert er ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær eignist um 1/6 í nýju hlutafélagi með Rafveitunni. Júlíus segir að tölur um verðmæti séu þó ekki úrslitaatriði í þessu samhengi heldur hver hlutföll verði í hinu nýja félagi. Á fundi stjórnar Hitaveitunnar í síðustu viku, þegar samrunaáætlunin var kynnt, lagði fulltrúi Vatnsleysustrandarhrepps fram bókun um að mat fyrirtækjanna væri gamalt og hann lýsti jafnframt óánægju með framgöngu stjórnarformanns og forstjóra varðandi málið.Júlíus Jónsson segir að tilgangur sameiningar sé að mynda sterkara fyrirtæki í væntanlegri samkeppni í orkusölu sem boðuð hefur verið. Hann segir tólf fyrirtæki stunda orkusölu og telur að þau verði ekki svo mörg eftir þrjú til fjögur ár. Hann segir ekki útilokað að fleiri bæjarfélög gangi inn í fyrirtækið á síðari stigum, t.d. Bessastaðahreppur, Garðabær og Kópavogur, en þau áttu aðild að viljayfirlýsingunni fyrir tveimur árum. MP verðbréf hafa leitt viðræðurnar og annast tæknilegan undirbúning.