Hugsaði um lífið að loknum veikindum
Frank Bergmann var að horfa á gamanmynd á DVD með Magnúsi Má vini sínum þegar blaðamaður Víkurfrétta heimsótti hann á þriðjudagskvöldið. Hafði reyndar séð myndina áður, enda segist hann vera búinn að horfa á allar nýjar bíómyndir sem komið hafa út síðustu þrjú árin og sumar þeirra oftar en einu sinni.
„Við pabbi erum búnir að horfa á allar þrjár myndirnar í Hringadróttinssögu svona hundrað sinnum,“ segir Frank og brosir og Brynjar faðir hans getur ekki annað en brosað og bent á að þetta séu lengri útgáfurnar af myndunum með öllu aukaefninu.
Kvikmyndaáhuginn er kominn til af því að sjúkrahúslegurnar eru langar og kannski ekki auðvelt að gera mikið annað en að horfa á kvikmyndir og spila tölvuleiki. Frank hefur sett sig vel inn í marga af vinsælustu leikjunum fyrir Playstation.
Það eru ekki bara tölvuleikir og kvikmyndir sem eiga hug og hjarta Franks, því hann hefur brennandi áhuga á judo og knattspyrnu. Frank á líka góða vini þegar kemur að knattspyrnunni og það sést best á búningasafninu sem Frank hefur komið sér upp.
Einn af góðum vinum hans er Grétar Rafn Steinsson sem er atvinnumaður hjá Bolton. Hann færði Frank keppnistreyju sína áritaða. Frank er mikill aðdáandi Arsenal og það var því mikil gleði þegar honum var færður keppnisbúningur Arsenal áritaður af öllum leikmönnum liðsins. Annar góður og persónulegur vinur er Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður með Barcelona. Hann heimsótti Frank fyrst á Barnaspítala Hringsins og hefur síðan þá komið í heimsókn til hans í Grindavík þar sem þeir hafa borðað saman og tekið í spil. Að sjálfsögðu er búningur Eiðs Smára frá Barcelona kominn í búningasafnið auk íslensku landsliðstreyjunnar. Og búningarnir eru ekkert plat, því þeir eru skítugir af grasi og svita, sem gerir þá mun verðmætari. Þá gaf Helgi Sigurðsson í Val treyjuna sína áritaða af öllum leikmönnum Vals.
Þegar Frank er spurður um tímann á sjúkrahúsunum í Reykjavík og Svíþjóð, segir hann suma daga hafa verið erfiðari en aðra. Mergskiptin hafi verið erfiðust. Þegar hann er spurður um hvað strákur eins og hann hugsi um á sjúkrahúsinu svarar hann um hæl.
„Ég hugsaði mikið um heilsuna og hvernig lífið yrði þegar ég hefði náð heilsunni aftur. Ég hugsaði líka mikið til vina minna sem voru í fótbolta heima á meðan ég var á sjúkrahúsinu, en nú er ég kominn heim“.
STYRKTARREIKNINGUR
Þeir sem vilja styðja við bakið á Frank geta sýnt stuðning sinn í verki með að leggja inn á reikning hans í Landsbankanum í Grindavík.
Reikningurinn er 143 – 26 – 199
Kennitalan er 140996 3199
Frank með Magnúsi Má sem er æskuvinur hans.