Hugsað um barn í Reykjanesbæ
Í gegnum tíðina hefur margt verið reynt í skólastarfinu til að forða æsku landsins frá eymd og volæði. Fyrrverandi eiturlyfjafíklar hafa komið í kennslustundir hjá nemendum grunnskólanna og sagt sorgarsögu sína og hver man ekki eftir myndbandinu um Ella, sem var alheilbrigður strákur, en hóf að sniffa lím og endaði sem ósjálfbjarga ungur maður í hjólastól. Engu að síður leiðast unglingar út í drykkju, vímuefnaneyslu og ótímabærar þunganir halda áfram að skjóta upp kollinum.
Þegar núverandi kennaraverkfalli lýkur munu Grunnskólar Reykjanesbæjar taka upp nýtt fræsðluverkefni sem ber heitið ,,Hugsað um barn."
Verkefnið hefur sannað sig sem áhrifaríkt heilbrigðis- og félagsforvarnaverkefni þar sem það hefur verið reynt og er fyrir nemendur í 8. bekk. Verkefnið hjálpar nemendum að taka upplýsta ákvörðun varðandi kynlíf og barneignir. Einnig er hér um að ræða nýstárlega fræðslu í áfengis- og vímuefnaforvörnum.
Vekja unglinga til umhugsunar um kynlíf
Verkefnið er komið til Íslands að tilstuðlan Ó.B. Ráðgjafar sem leitaði út fyrir landsteinana til að koma verkefninu á fót. Markmiðið er að vekja unglinga til umhugsunar um afleiðingar kynlífs og leitast við að hafa áhrif á að þeir byrji að stunda kynlíf eldri en nú þekkist og af meiri ábyrgð. Ein alvarlegasta áhættuhegðunin hjá unglingum er að byrja stunda kynlíf of ung sem m.a. ýtir þeim oft út í að neyta áfengis, en alkahólvíman vekur oft áhuga unglinga á að prófa vímu af ólöglegum vímugjöfum. Það er leitun að unglingi sem byrjar að fara í vímu af ólöglegum vímugjöfum áður en hann kynnist fyrst vímunni af alkahóli.
Í „barninu“ er tölva
,,Hugsað um barn verkefnið felst í því að nemendur fá, yfir eina helgi, dúkkur til umönnunar. Dúkkan líkist mjög mikið alvöru barni en hún hefur hlotið nafnið Raunveruleiknibarnið. Í "barninu" er tölva sem segir til um það hvernig foreldri nemandinn hafi reynst," segir Ólafur Grétar Gunnarsson hjá Ó.B. Ráðgjöf.
Reykjanesbær fyrsta sveitarfélagið
Reykjanesbær mun verða fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem tekur upp þessa kennsluaðferð fyrir nemendur sína. Fræðsluverkefnið hefur reynst gífurlega vel í Noregi, Ástralíu og víðar. Verkefnið er einnig mikill stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu. Nú þegar hefur Reykjanesbær veitt styrk til verkefnisins en Raunveruleiknibörnin og sá búnaður sem þeim tengist er mjög dýr í kaupum og því verða þau leigð af Ó.B. Ráðgjöf. Raunveruleiknibarnið grætur, hjalar, það þarf að skipta á því, láta það ropa og það heimtar mat hvenær sem er sólarhringsins. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, tekur verkefninu fagnandi. ,,Ég tel að reynslan sýni að verkefnið sé mjög öflugt forvarnarverkefni sem gerir ungu fólki grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að eiga börn," segir Árni.
Í Reykjanesbæ hefur fagfólk lengi leitað leiða til að fækka ótímabærum þungunum. Eitt slíkt verkefni hófst árið 1992 en um árabil hafa sambærileg verkefni verið starfrækt víða um land.
Fundu dúkkuverkefnið í Noregi
Árið 2003 komust frumkvöðlarnir Ólafur Grétar og Bjarni Þórarinsson á snoðir um dúkkuverkefnið í Noregi en þar hefur verkefnið skilað 100% árangri í því að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir hjá 18 ára og yngri.
Fær víða góðan stuðning
Nemendur við Háskólann í Reykjavík gerðu könnun á viðhorfi til kynfræðslu meðal nemenda í 8.bekk. Niðurstöður þeirrar könnunar voru afgerandi. 6% nemenda töldu sig tilbúin til að eignast barn og ala því önn. Lýðheilsustöð telur verkefnið afar þarft og Landlæknisembættið mælir með þessari fræðslu og telur hana nýstárlega útfærslu á kynfræðslu sem muni höfða til unglinga. Barnaverndarstofa mælir einnig með verkefninu. Umboðsmaður barna á Íslandi hefur fylgst vel með því vandamáli sem þunganir og kynsjúkdómar eru hjá unglingum og hefur verið með þrýsting á stjórnvöld að bregðast við af fullum þunga. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða áhrif þetta verkefni muni hafa á grunnskólanemendur Reykjanesbæjar og foreldra þeirra.