Hugnast ekki milljarði króna dýrara íþróttahús og sundlaug
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar segja frekari greiningarvinnu vanta varðandi framkvæmdir
Bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hugnast ekki að ráðast í fjárfestingu við nýtt íþróttahús og sundlaug við Stapaskóla sem er milljarði króna dýrari en einfaldari útfærsla. Bæjarfulltrúar, þau Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, bókuðu um málið á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjnesbæjar.
„Fyrsti áfangi Stapaskóla hefur nú verið tekinn í notkun og þykir byggingin afar glæsileg enda mun dýrari en sambærilegar byggingar.
Áfangi 2 snýr að byggingu íþróttaaðstöðu og upphafleg greining tók mið af þörfum skólabarna þar sem kennslulaug og einfaldur íþróttasalur myndi duga. Á síðari stigum var viðruð sú hugmynd að íþróttasalur nýttist sem löglegur körfuknattleiksvöllur og í sumar var ræddur sá möguleiki að setja upp aðstöðu fyrir rúmlega 1.000 áhorfendur og sundlaug yrði einnig stækkuð. Á síðasta bæjarráðsfundi voru lagðar fram skissur þar sem nokkrir valkostir voru kynntir ásamt grófri kostnaðaráætlun. Einföld útfærsla mun kosta rúman milljarð en ef farið yrði alla leið þá gæti kostnaður nálgast tvo milljarða.
Við undirrituð treystum okkur ekki til að styðja auknar fjárfestingar um nærri milljarð króna án þess að frekari greiningarvinna fari fram. Í greiningunni komi fram hvernig íþróttahúsið og sundlaug muni nýtast í náinni framtíð, hvaða íþróttagreinar og félög myndu nota aðstöðuna og hvort það nýtist einnig til æfinga, hvort bílastæði séu nægjanleg þegar kappleikir standa yfir, hvort sundlaugin verði notuð til æfinga eða hvort opið verði fyrir almenning fram eftir kvöldi og fleira sem skiptir máli í þarfagreiningu. Nú þegar gróf kostnaðaráætlun hefur verið kynnt er nauðsynlegt að rýna þarfirnar áður en lengra er haldið. Við hönnunarvinnu verði leitast við að velta upp öllum möguleikum á ódýrari útfærslum án þess að það komi niður á gæðum.“