Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 28. nóvember 2003 kl. 10:29

Hugmyndir um gæsluvarðhaldsfangelsi og stjórnsýsluhús innan varnarsvæðisins

-gæti skapað 40 ný störf á Suðurnesjum.

Íslenskir Aðalverktakar hafa reifað hugmyndir við íslensk stjórnvöld um að hluti bygginga fyrirtækisins innan varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli verði notaðar undir gæsluvarðhaldsfangelsi og yfirstjórn sýslumannsembættanna á Suðurnesjum. Stefán Friðfinnsson forstjóri Íslenskra Aðalverktaka staðfesti í samtali við Víkurfréttir að þessar hugmyndir væru upp á borðinu og hefðu verið nokkuð lengi. „Við höfum kynnt þessar hugmyndir fyrir þremur dómsmálaráðherrum, en hugmyndir okkar hafa ekki hlotið hljómgrunn,“ segir Stefán, en fyrirtækið á töluvert af byggingum á varnarsvæðinu. „Meðal þeirra bygginga sem fyrirtækið á þarna er 96 herbergja hótel sem gæti nýst sem gæsluvarðhaldsfangelsi og byggingar sem gætu með breytingum hýst sýslumannsembættin og þjónað hlutverki stjórnsýsluhúss.“

Víkurfréttir hafa heimildir fyrir því að teikningar hafi verið gerðar af stjórnsýsluhúsi og gæsluvarðhaldsfangelsi innan varnarsvæðisins og séu til skoðunar hjá ýmsum aðilum á Suðurnesjum.

Aðilar sem Víkurfréttir ræddu við vegna málsins segja að 40 ný störf gætu skapast ef þessar hugmyndir yrðu að veruleika.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024