Hugmyndir um að byggt verði við Stapann
Hugmyndir eru uppi um að tónlistar- og ráðstefnumiðstöð verði reist við Stapann í Njarðvík. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefur greint frá þessum hugmyndum á íbúafundum sem hann hefur haldið síðustu daga.
Gert er ráð fyrir að Tónlistarskóli Reykjanesbæjar verði þungamiðja starfsemi í húsinu og að þar verði aðstaða fyrir kóra og tónlistarhópa. Einnig er gert ráð fyrir poppminjasafni og veitingaþjónustu.
Að sögn Árna eru eigendur Stapans áhugasamir, en Reykjanesbær á 30% í húsnæðinu. Verið er að kanna viðbrögð fleiri aðila á svæðinu um stofnun eignarhalds- og rekstrarfélags. Árni segir að engin ákvörðun hafi verið tekin varðandi byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar og segir að hugmyndin sé til skoðunar.
Tölvumyndir: Hugmynd byggir á að byggt sé ofan á hliðarbyggingar við Stapa og umhverfis.
Séð inn að veitingastað og poppminjasafni. Uppi eru svalir að tónlistarstofum.