HSS réð starfsmannastjóra úr Mosfellsbæ - „Sigríður, svona gerir maður ekki “
Formaður Starfsmannafélags Suðurnesja undrast mjög þá ákvörðun Sigríðar Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, að ráða starfsmann úr Mosfellsbæ í afleysingastöðu starfsmannastjóra HSS, í stað þess að ráða starfsmann frá Suðurnesjum í starfið. Hátt í 50 umsóknir bárust um starfið og flestar þeirra frá Suðurnesjum
„Sigríður, svona gerir maður ekki,“ sagði Ragnar Örn Pétursson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir. Hann bendir á að nú sé um 15% atvinnuleysi á Suðurnesjum og á meðal umsókna um starfið hafi verið fjölmargar frá hæfum einstaklingum frá Suðurnesjum.
Ragnar Örn bendir á að nýlega hafi starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja tekið á sig launaskerðingu og meðal annars hafi ökutækjastyrkir verið teknir af launum starfsmanna. Ragnar sagði að líklega þurfi þessi nýi starfsmaður úr Mosfellsbæ að aka daglega milli Reykjanesbæjar og Mosfellsbæjar og það geri hann örugglega ekki án þess að fá til þess styrk.
Fyrst og fremst á stofnun eins og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að ráða til sín hæft starfsfólk af svæðinu, sérstaklega í því atvinnuástandi sem nú ríkir, segir Ragnar Örn Pétursson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesja.