Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HSS: Komast hugsanlega hjá uppsögnum
Halldór Jónsson, forstjóri HSS, og Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSS.
Fimmtudagur 19. desember 2013 kl. 11:50

HSS: Komast hugsanlega hjá uppsögnum

Forstjóri og framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSS segja stöðu HSS betri en til stóð.

„Ég hef leyfi til að vitna til samtals okkar ráðherra að hlutunum verður komið þannig fyrir að ekki komi til uppsagna eða stærri breytinga á HSS. Það er afskaplega jákvætt. En í öllum rekstri er alltaf verið að gera tilfærslur og breytingar sem geta þýtt breytingar hjá starfsmönnum og ekki hægt að undirskilja slíkt. Útlitið er betra en það var,“ segir Halldór Jónsson, forstjóri HSS, í samtali við Víkurfréttir. Fyrirhugaður var niðurskurður í fjárlögum til HSS og tekjumissir við það að missa 18 hjúkrunarrými sem stofnunin hefur séð um tímabundið á meðan byggingu Nesvalla stóð.

Örfáar stöður verða fyrir breytingum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Halldór segir örfáar stöður verða fyrir breytingum vegna skipulagsbreytinga en það snúist ekki um 20 - 30 manns eins og lagt var upp með í byrjun. Þetta kynnti hann á starfsmannafundi HSS í gærmorgun eftir fund með Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra. „Við ættum að komast hjá því að fara í uppsagnir sem einhverju nemur. Ég get ekki sagt að það séu engar uppsagnir og geri ekki lítið úr einstaklingum sem verið er að gera breytingar hjá, en það leit úr fyrir að um væri að ræða einhverjar 200 milljónir sem við þyrftum að vinna með miðað við ársgrundvöll. Við fengum einhverjar 60 milljónir miðað við 2. umræðu fjárlaga hjá Alþingi og síðan höfum við verið að fara yfir hlutina,“ segir Halldór.

Unnið er í að finna verkefni

Þá sé heilbrigðisráðherra að vinna í því að með einhverjum leiðum að koma meiri fjármunum og verkefnum til HSS. Halldór segir einhverja peninga og verkefni verða að koma inn. Kannski sé ekki búið að útfæra það nánar og verði kynnt þegar það liggur fyrir. „Ég er fyrst og fremst þakklátur ráðherra fyrir ætlan hans í því að mæta þeirri minnkun á fjármunum sem stofnunin hafði til að vinna með á þennan hátt. Það breytir heilmiklu fyrir starfsmenn og samfélagið í heild,“ segir Halldór.

„Erum afskaplega ánægð“

Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSS, sagði þetta í samtali við Víkurfréttir: „Við erum að gera skipulagsbreytingar hér og þar sem eru ekkert umdram það óvenjulega. Við stóðum frammi fyrir því að þurfa að loka hluta af deild þar sem hjúkrunarrýmin 18 eru, þegar þau flytja yfir á Nesvelli. En heilbrigðisráðherra stoppaði það af og við vorum að vonum afskaplega ánægð með það.“ Hún vonar að HSS fái verkefni í staðinn. „Ég veit ekki að svo stöddu hvers konar en eitthvað vonandi tengt hvíldarinnlögnum eða slíkri sjúkrahússtarfssemi,“ segir Þórunn.
 

VF/Olga Björt