Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

HSS: Hugsanleg lokun á deildum vegna manneklu
Mánudagur 25. september 2006 kl. 09:46

HSS: Hugsanleg lokun á deildum vegna manneklu

Til vandræða horfir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og getur jafnvel farið svo að loka þurfi endurhæfingardeild og D-álmu. Að hluta til skapast þessar aðstæður vegna þess að fimm hjúkrunarfræðingar eru á leið í barnsburðarleyfi á sama tíma og ekki hefur tekist að manna stöðurnar.

„Vissulega sjáum við fram á erfiðleika við að manna stöður hjúkrunarfræðinganna sérstaklega. Ef til þess kemur að loka þurfi þessum deildum vegna manneklu verður það vonandi tímabundið í stuttan tíma. Hins vegar er rétt að taka fram að það er ekkert búið að ákveða endanlega í þessum efnum, við erum að skoða þetta þessa dagana,“ sagði Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS, í samtali við VF.

Starfsfólk HSS mun fyrir nokkru hafa sent stjórninni bréf þar sem bent var á það mikilvæga starf sem fram færi á umræddum deildum. Sigríður segir engan vafa leika á því að þarna sé unnið gott starf en það þurfi eftir sem áður að vera til staðar starfsfólk til að sinna því.

„Spurningin er hvort við ráðum við að halda þessum deildum opnum með ekki fleiri hjúkrunarfræðinga en við höfum núna. Við höfum verið tiltölulega vel sett með mannahald fram til þessa, miðað við hvað margar aðrar heilbrigðisstofnanir hafa þurft að glíma við.  En það hlaut að koma að því að við lentum í vandræði og kannski gerði hún útslagið, þessi mikla frjósemi á staðnum,“ sagði Sigríður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024