HSS: Gjafir velunnara leigðar til einkareksturs?
Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa verið naumt skammtaðar miðað við aðrar sambærilegar stofnanir. Í sumar leit út fyrir að stofnunin fengi leiðréttingu sinna mála hjá heilbrigðisráðuneytinu þegar stefndi í að skerða þyrfti þjónustu verulega vegna naumra fjárveitinga. Meðal annars stóð til að loka læknavakt eftir kl. 16 á daginn. Þeim aðgerðum var frestað á meðan ráðuneytið var að skoða málið, m.a. fyrir tilstuðlan sveitarstjórnamanna á Suðurnesjum og ekki síst í ljósi megnrar óánægju íbúana. HSS hafði fram að því árangurslaust reynt að fá leiðréttingar.
Og enn er sótt að stofnuninni. HSS þarf að ná fram 200 milljón króna sparnaði samkvæmt skipun ráðuneytisins, þrátt fyrir að stofnunun hafi verið fjársvelt af hálfu ráðuneytisins.
Á fjárlögum ársins 2008 fékk Heilbrigðisstofnun Suðurnesja rúman 1,6 milljarð til rekstursins, sem gerir 78.734 kr. á íbúa miðað við 20.446 íbúa. Þegar litið er á fjárveitingar til átta annarra sambærilegra stofnana miðað við íbúafjölda er þessi upphæð langlægst. Sú heilbrigðisstofnun sem næst kom fékk 101.013 kr. á íbúa og sú sem mest fékk, var með 200.976 kr. á íbúa.
Í því ljósi er erfitt að ímynda sér hvernig fjársvelt stofnunin á að geta skorið niður um 200 milljónir.
Eins og fram hefur komið lítur út fyrir að heilbrigðisráðherra vilji leigja rekstur skurðstofunnar á HSS til einkaaðila. Fréttir í þá veru að tiltekinn auðmaður hafi komið og skoðað skurðstofurnar þykja renna stoðum undir það.
Á hitt ber að líta að HSS hefur átt marga velunnarra í félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum, sem hafa fært stofnuninni tæki og tól og gert henni þannig kleift að halda úti þjónustu langt umfram það sem fjárveitingar heilbrigðisráðuneytisins hafa gefið tilefni til.
Á skurðstofunni er m.a. að finna búnað sem velunnarar stofnunarinnar hafa gefið henni. Ætla má að þær gjafir hafi varla verið hugsaðar þannig að heilbrigðisráðherra gæti síðan leigt þær áfram til einkareksturs.
Tengdar fréttir:
Ráðuneytið vill rekstur skurðstofu í hendur annarra en HSS
Alvarleg staða hjá HSS: Starfsfólki fækkað, nýrri skurðstofu og deildum lokað
Heilbrigðisráðuneytið fær sparigrís
HSS: Árangurslaust reynt að fá leiðréttingar
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) nauðbeygð til að draga úr þjónustu heilsugæslunnar
Fjárhagsvandi HSS í skoðun hjá ráðuneytinu
Skora á heilbrigðisráðherra
Ættu að skammast sín
HSS: Fulltrúar SSS funda með ráðherra eftir helgi
Fresta lokun síðdegisvaktar
Hafa áhyggjur af HSS
Málefni HSS: Fundað með heilbrigðisráðuneyti á morgun