HSS: Fulltrúar SSS funda með ráðherra eftir helgi
Fulltrúar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) munu eiga fund á þriðjudaginn með heilbrigðisráðherra vegna stöðunnar sem komin er upp með Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), að sögn Oddnýjar Harðardóttur, formanns SSS.
Eins og komið hefur fram neyðist HSS til að skerða þjónustu verulega vegna þess hve fjárveitingar til hennar eru naumt skammtaðar. Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, sagði í samtali við VF nú í morgun að lítið væri hægt að segja um stöðu málsins að svo stöddu annað en að það væri í vinnslu.
„Mér finnst vera kominn skilningar hjá heilbrigðisráðherra og ráðuneytinu á því að þarna þarf að gera bragabót ekki síst vegna þess hve íbúum á svæðinu hefur fjölgað ört á síðustu árum. Það þarf vissulega að taka tillit til þessarar íbúafjölgunar. Ég er að vona að þetta mál verði klárað fyrir haustið. Að öllu jöfnu mætti gera ráð fyrir því með gerð fjárlaga í haust en mér finnst liggja í loftinu vilji til þess að klára þetta mál fyrir haustið og koma því í farsælt horf,“ segir Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, inntur álits á þeirri stöðu sem nú er uppi hjá HSS.