Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HSS: Fjárskortur hamlar þjónustu
Föstudagur 5. október 2007 kl. 09:21

HSS: Fjárskortur hamlar þjónustu

Skortur á sérfræðimenntuðum læknum og fjárframlögum úr ríkissjóði eru Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fjötur um fót. Þetta kemur fram í ársskýrslu um starfsemi stofnunarinnar árið 2006 sem var kynnt á ársfundi HSS í vikunni.
 
,,Það vantar fjármuni til að mæta fólksfjölgun á svæðinu,“ segir Drífa Sigfússdóttir, framkvæmdastjóri HSS í samtali við Víkurfréttir og bætir því við að fjárveitingar til heilsugæslu eru miðaðar við íbúatölur frá 2005 sem gangi alls ekki upp, enda hafa þúsundir íbúa hafa bæst við á svæðinu, frá þeim tíma. „Við þurfum fleiri lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæsluna. Það er mikil aukning í starfsemi HSS á flestum sviðum t.d. 10% í heilsugæslu og 30% fjölgun á komum í sykursýkismóttöku, án þess að starfsfólki fjölgi. Við erum með gott starfsfólk sem er að reyna sitt allra besta en það getur ekki bætt við sig verkefnum endalaust.“


Drífa bætir því við að nú standu til að bæta þjónustu heilsugæslunnar  um 100% í  Garði, Sandgerði og Vogum og einnig verður bætt við þjónustuna í Grindavík. „Í vetur verður svo opnuð símaráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingi sem bætir aðgengi fólks að fagfólki, ekki síst barnafólkinu sem oft vantara svör við margvíslegum spurningum.“


Þrátt fyrir allt fékk stofnunin þó vilyrði fyrir því að hús HSS verði tekið í gegn að utan og málað á næsta ári sem er jákvætt. „Þá trúi ég því að heimamenn muni taka sig saman og styrkja okkur til kaupa á tölvusneiðmyndatæki eins og  Víkurfréttir hafa vakið athygli á.”


Drífa leggur einnig mikla áherslu á að á Suðurnesjum eigi að vera sólarhringsopnun skurðstofu alla daga vikunnar m.a. til að bæta öryggi fæðandi kvenna. „Fæðingum fer ört fjölgandi á svæðinu með nýju ungu fólki. Hér vinnur vel menntað og gott starfsfólk sem leggur sig fram við erfiðar aðstæður,“ segir hún.


„ Í þriðja lagi þá þurfum við fleiri sérfræðinga til starfa hér. Suðurnesjamenn þurfa að sækja ¾ af sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðið í stað þess að HSS fái fjármuni til að veita þjónustuna. Það er réttlætismál að Suðurnesjamenn fái að njóta eðlilegrar nærþjónustu á HSS í stað þess að sækja þjónustuna á Höfuðborgarsvæðið,“ sagði Drífa að lokum.

VF-mynd/Þorgils: Frá ársfundi HSS. Konráð Lúðvíksson og Drífa Sigfússdóttir fara yfir stöðu stofnunarinnar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024