HS: Tillhögun sölu á hlut ríkisins auglýst.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu í umboði fjármálaráðherra, hefur formlega auglýst tilhögun sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. Um er að ræða rúmlega 15,2% af heildarhlutafé félagsins að nafnverði 1.133.356.000 krónur.
Söluferlið verður tvíþætt. Þeir sem hafa hug á að bjóða í eignarhlutinn verða að hafa lýst yfir áhuga sínum fyrir 2. apríl næstkomandi. Uppfylli þeir tiltekin skilyrði geta þeir tekið þátt í seinni umferð söluferlisins.
Þau skilyrði, sem tilboðsgjafar þurfa að uppfylla eru eftirfarandi:
1. Tilboðsgjafi skal uppfylla skilyrði laga um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, til fjárfestinga í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar orkuvinnslu og orkudreifingu.
2. Eignarhluturinn verður eingöngu seldur í einu lagi til eins aðila, þ.e. einstaklings eða lögaðila.
3. Tilboðsgjafi verður að sýna fram á fjárhagslegan styrkleika til að efna kaupin, hvort sem er með eigin fé eða annars konar fjármögnun.
4. Loks mega íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu, þ.e. þau félög sem stunda starfsemi sem fellur undir raforkulög, ekki bjóða í eignarhlut íslenska ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu vekur athygli á að samkvæmt samþykktum Hitaveitu Suðurnesja eigi félagið sjálft og núverandi hluthafar forkaupsrétt að eignarhlutunum.
Capacent ehf hefur verið fengið til ráðgjafar við söluna.