HS Orka verður áfram í eigu Alterra
Frestað hefur verið viðræðum um kaup íslenskra fjárfesta á tveimur þriðju hlutum í HS Orku, hlut sem nú er í eigu kanadíska fyrirtækisins Alterra Power, sem áður hét Magma Energy. Rúv greinir frá þessu.
Samkvæmt heimildum Rúv hafa samningaviðræður tekið lengri tíma en menn gerðu ráð fyrir í upphafi en ár er liðið frá því undirbúningur að kaupunum hófst. Ekki mun deilt um verð heldur hefur Seðlabankinn lagst gegn greiðslufyrirkomulaginu þar sem það fari í bága við gjaldeyrishöftin.
Þegar greint var frá áhuga fjárfestanna, en félag þeirra heitir Modum, í júní í fyrra lýsti Alterra því yfir að gengju áforminn ekki eftir myndi Alterra áfram eiga hlutinn í HS Orku.