HS orka og Norðurál í viðræðum um orku fyrir Helguvíkurálver
Viðræður standa yfir milli HS Orku og Norðuráls um 150 megawött af orku vegna álvers í Helguvík og freista menn þess að afstýra frekari málaferlum vegna fjögurraára samnings um orkukaupin. Norðurál á í viðræðum við Orkuveituna og Landsvirkjun um kaup á álíka mikilli orku. RÚV greindi frá þessu í kvöld.
Fyrir fjórum árum sömdu HS Orka og Norðurál um orku vegna álversins. Menn hafa ekki verið sammála um arðsemisútreikninga þess samnings og er málið nú komið í gerðardóm í Svíþjóð. Hann tekur málið fyrir í lok maí náist ekki samningar fyrir þann tíma. Norðurál og HS Orka og móðurfélög þeirra funduðu í New York á miðvikudag. Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku segir við RÚV að ákveðinn árangur hafi náðst á þeim fundi.
„Það var ákveðið að gera tilraun til þess að ná samningi. Við stefnum á annan fund í lok mánaðarins.“
Júlíus segir að þó svo að samkomulag hafi ekki náðst um verðið ætti að vera hægt að brúa það bil. Rætt er um að HS Orka útvegi 150 megawött og jafnvel meira seinna.
Engin leyfi liggja fyrir en Júlíus vonast til þess að fljótlega fáist leyfi fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar. Júlíus segir að ef það gangi eftir og samingar náist ætti að vera hægt að hefjast handa í lok ársins. Norðurál vill tryggja orku í fyrstu tvo áfangana, eða þrjú hundruð megawött og nokkuð góða tryggingu fyrir þriðja áfanga eða hundruð og fimmtíu megawöttum til viðbótar. Greint hefur verið frá því að lífeyrissjóðir kanni nú möguleikann á að fjármagna Hverahlíðavirkjun svo Orkuveitan geti útvegað orku til Helguvíkurálvers. Samkvæmt upplýsingum forstjóra Landsvirkjunar á fyrirtækið einnig í viðræðum við Norðurál. Ekkert fæst uppgefið um þær viðræður annað en að Landsvirkjun ræði orkusölu við um tíu aðra aðila