HS Orka hefur hreinsun á brennisteinsvetni í Svartsengi
HS Orka hf. hefur skrifað undir samstarfssamning við danska hátæknifyrirtækið Haldor Topsøe um byggingu tilraunastöðvar til að hreinsa brennisteinsvetni (H2S) úr gasstraumi sem fellur til við nýtingu jarðvarma í Svartsengi.
Tilraunastöðin, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar, byggir á nýrri tækni og sérþekkingu danska fyrirtækisins en aðferðin felur í sér hvatað efnahvarf. Um er að ræða afar umhverfisvæna og hagkvæma lausn til þess að fjarlæga brennisteinsvetni úr gasstraumi jarðvarmavera, minnka lykt og samhliða framleiða hreinan koltvísýring (CO2).
Við nýtingu á jarðvarma fellur til nokkuð magn jarðhitagastegunda, s.s. koltvísýringur og brennisteinsvetni. Koltvísýringurinn er verðmæt afurð í ýmiskonar iðnað og framleiðslu. Aðferð Haldor Topsøe fjarlægir brennisteinsvetni úr gasinu svo eftir stendur hreinn koltvísýringsstraumur. Brennisteinsvetninu verður dælt aftur niður í jörðina í uppleystu formi sem kemur til með að hafa jákvæð áhrif á rekstur niðurdælingar. Tilraunastöðin mun hreinsa hluta af þeim gasstraumi sem fellur til við nýtinguna. HS Orka stefnir að því að hefja rekstur tilraunastöðvarinnar snemma árs 2017.
„Markmið HS Orku er að nýta allar þá strauma sem falla til við nýtingu auðlindarinnar sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir. Samningurinn við Haldor Topsøe gerir það að verkum að framboð af hreinum koltvísýring (CO2) eykst innanlands. Þetta er jákvætt skref fyrir okkur og fellur vel að markmiðum Auðlindagarðsins, samfélag án sóunar og er viðbót við núverandi fjölþætta starfsemi í Auðlindagarðinum,“ segir Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri Auðlindgarðs hjá HS Orku.