Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

HS Orka ekki á barmi gjaldþrots, segir forstjórinn
Miðvikudagur 9. september 2009 kl. 08:28

HS Orka ekki á barmi gjaldþrots, segir forstjórinn


„HS Orka hf á alla möguleika á að standa vel og er fjarri því að vera á „barmi gjaldþrots“ enda engin hagur í því fyrir bankana að gjaldfella lán við núverandi aðstæður fyrirtækisins, ytri sem innri,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku inntur álits á ummælum sem féllu í Silfri Egils um helgina. Þar var því haldið fram að HS Orka rambaði á barmi gjaldþrots.

Í þættinum var rætt við Ketil Sigurjónsson, lögfræðing, sem heldur úti bloggi um orkumál.  Ketill sagði HS Orku ramba „á barmi gjaldþrots“. Eigið fé fyrirtækisins væri nánast gufað upp. Hætta væri á gjaldþroti nema ástandið skánaði mikið á næstunni. Fyrirtækið væri að komast  „á framfæri kröfuhafanna,“ eins og hann orðaði það og yrði „tekið upp í skuld“. Eina leiðin til að bjarga HS Orku væri að fá nýtt fjármagn inn í félagið.

Víkurfréttir inntu Júlíus Jónsson, forstjóra HS Orku álits á þessum ummælum. Hann sendi í gærkvöldi frá sér skriflegt svar sem er birt hér að neðan í heild sinni og er eftirfarandi:


HS Orka „á barmi gjaldþrots“

Nokkrar staðreyndir í kjölfar ummæla sem féllu í „Silfri Egils“



•    Eigið fé HS Orku hf var samkvæmt uppgjöri 30. júní 6,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall 18,3%.
•    Langtímaskuldir voru 23,4 milljarðar og skammtímaskuldir 5,8 milljarðar og skuldir alls þá 29,2 milljarðar. Félagið átti hinsvegar skuldabréf HS Veitna hf að upphæð 3,7 milljarðar á móti skuldum.
•    Handbært fé fyrir vexti og skatta var 2,1 milljarður.
•    Rekstrartekjur eru áætlaðar 5,3 milljarðar árið 2009 eða um 18% heildarskulda og 21% að teknu tilliti til skuldabréfaeignar.
•    (Eiginfjárhlutfall HS Veitna hf er 52,2%).

-----------------------------------------------------

•    Eiginfjárhlutfall Orkuveitu Reykjavíkur (fékk frest til uppskiptingar) var 30. júní 37,3 milljarðar og eiginfjárhlutfall 14,1%.
•    Heildarskuldir OR voru þá 224,1 milljarður eða 7,7 sinnum hærri en HS Orku.
•    Tekjur óskiptrar Orkuveitu voru um 12 milljarðar fyrstu 6 mánuði ársins og þá á ársgrundvelli tæplega 5 sinnum hærri en HS Orku hf.
•    Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var rúmir 6 milljarðar eða tæplega þrefalt hærra en hjá HS Orku hf.

-----------------------------------------------------

•    Eigið fé Landsvirkjunar var um 170 milljarðar og eiginfjárhlutfall 31,2%. Félagið gerir upp í USD og sleppur því mun betur frá falli ISK.
•    Heildarsskuldir eru tæplega 400 milljarðar eða nær 14 faldar skuldir HS Orku.
•    Tekjur Landsvirkjunar voru um 17 milljarðar fyrstu 6 mánuði ársins og þá á ársgrundvelli um 7 sinnum hærri en HS Orku hf.
•    Handbært fé frá rekstri án vaxta eru rúmir 15 milljarðar eða rúmlega 7 sinnum hærri en HS Orku hf.

-----------------------------------------------------

•    HS Orka hf starfar á eigin ábyrgð. OR og Landsvirkjun starfa á ábyrgð skattgreiðenda í Reykjavík og á landinu öllu (þar með HS Orku hf sem skattgreiðanda). Þess vegna eru ekki að því er við best vitum ekki kvaðir um eiginfjárhlutföll o.s.fr. í lánssamningum þeirra með sama hætti og hjá HS Orku hf.

•    Ofangreindar rekstrartölur sýna að fyrirtækið stenst vel samanburð við hin orkufyrirtækin að öðru leyti að það hefur ekki beint skjól frá skattgreiðendum eins og þau.


•    Eiginfjárhlutfall HS Orku hf lækkaði 2008 vegna gengistaps og lækkunar álverðs og því hefur félagið tímabundið ekki náð að uppfylla skilmála um eiginfjárhlutfall o.fl. auk þess sem lögbundin uppskipting breytti myndinni talsvert. Viðræður hafa staðið yfir við erlendu bankana um tímabundna undanþágu frá lánsskilmálum og eru þær á lokastigi. Hafa verið lagðar fyrir þá áætlanir sem sýna að félagið getur staðið við greiðslu allra lána og í raun greitt þau að mestu upp á næstu 8 – 10 árum. Aldrei hefur verið nefnd nein niðurfelling eða lækkun lána í þessum viðræðum enda engin þörf á því miðað við núverandi lánskjör.

•    Stöðvun gengislækkunar ISK, hækkun álverðs og lækkun vaxta á alþjóðamörkuðum tryggja að fyrirtækið eflist enn frekar á næstu misserum.

•    HS Orka hf á því alla möguleika á að standa vel og er fjarri því að vera á „barmi gjaldþrots“ enda engin hagur í því fyrir bankana að gjaldfella lán við núverandi aðstæður fyrirtækisins, ytri sem innri.

Júlíus Jónsson
Forstjóri HS Orku hf

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024