HS og FSS gera samning um verndun náttúru og fornra þjóðleiða á Reykjanesi
Hitaveita Suðurnesja og Ferðalmálasamtök Suðurnesja undirrituðu í morgun samning um verndun náttúru og fornra þjóðleiða á Reykjanesi. Samningsaðilar segja að Reykjanesskaginn sé starfsvettvangur beggja aðila þar sem sameiginlegir hagsmunir um nýtingu skagans séu miklir.
„Umgengni um viðkvæma náttúru Reykjanesskagans er mikilvægur hluti þessa samkomulags en báðir aðilar eru sammála því að vernda ósnorta náttúru Reykjanesskagans eins og kostur er, “ segir í fréttatilkynningu frá samningsaðilunum.
Þar segir einnig að aðilar samningsins telji mikilvægt að þar sem framkvæmda og mannvirkja er þörf verði þess ávallt gætt að raska umhverfinu sem minnst og mannvirki HS utan þéttbýlis verði eins lítið áberandi í náttúrunni og kostur er.
Viðhald 22ja fornra þjóðleiða sem liggja um allan Reykjanesskagann er hluti þessa samnings. Göngustígarnir sem um ræðir eru um 240 km langir auk Reykjavegarins sem er um 114 km langur. Viðhald og endurbætur á þessum þjóðleiðum, sem sumar hafa jafnvel verið notaðar frá landnámi, er mikið verkefni. Hitaveita Suðurnesja hf. skuldbindur sig til að fjármagna þetta viðhald samkvæmt þessum samningi.
Þá er einnig komið inn á kynningarmál í samningnum en staðið verður að reglubundnu ráðstefnuhaldi um verndun og náttúru Reykjanesskagans og nýtingu landsins almennt.
Mynd: Frá undirritun samningsins í morgun. VF-mynd:elg