Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 17. desember 2001 kl. 00:49

Hryðjuverkamenn og skotbardagi í Svartsengi

Hryðjuverkamenn sem eru að reyna að komast yfir gjöreyðingarvopn hafa komið sér fyrir í orkuveri 4 í Svartsengi og þar á sér stað mikill skotbardagi sem endar með miklum sprengingum. Þorsteinn Jónsson Eldborgarjarl segir frá þessu í pistli á fréttavef Hitaveitu Suðurnesja hf.Hér er smá brot úr frásögn Þorsteins::
Gestir koma í Eldborg í hinum margvíslegustu erindagjörðum, sumir til að fræðast um jarðfræðina aðrir um orkuna, enn aðrir til að afla sér upplýsinga um fyrirtækið, en sumir einfaldlega sér til skemmtunar, og svo bregður við, að menn villist hér inn til heimildaöflunar. Þannig var það, að fyrir rúmu ári síðan kom hingað til lands bandarískur rithöfundur að nafni Jack Du Brul. Rithöfundur þessi skrifar reyfara í spennusagnastíl. Hann kom vel fyrir, og eftir að hafa kynnt sig, tjáði hann mér, að hann væri hingað mættur til að afla sér heimilda vegna bókar, sem hann væri að vinna að. Hann kvaðst jafnframt hafa ferðast víða um heiminn sömu erinda. Undirritaður reyndi eftir fremsta megni að skýra út fyrir honum orkuferlið, en það sem vakti hvað mestan áhuga hjá viðkomandi var, hvar eldfimir vökvar væru geymdir og hvort mikið þyrfti til, að allt springi í loft upp, og í framhaldi af því, hversu miklar skemmdir mætti áætla að yrðu á orkuverinu. Þetta voru hinar ótrúlegust spurningar, og allar þessar upplýsingar skráði rithöfundurinn niður í minnisbók, er hann hafði meðferðis. Eftir talsverða viðdvöl taldi Du Brul sig hafa nægar upplýsingar í farteskinu til að ljúka um þeessum þætti bókarinnar. Í ágúst í árri birtist síðan Þórður stöðvarstjóri inni á skrifstofu með þykkan pakka undir hendinni. Undirritaður opnar pakkann og innan í honum leynist nýjasti reyfari höfundarins ,og á fremstu síðu hafði hann ritað þakkarorð í garð undirritaðs en auk þess hlotnaðist mér sá heiður að vera þakkað sérstaklega sem heimildamanni í niðurlagi bókarinnar. Bókin ber titilinn PANDORAS CURSE og fjallar um hryðjuverkamenn sem eru að reyna að komast yfir gjöreyðingarvopn. Um er að ræða skáldsögu, sem fléttuð er sönnum atburðum. Að mestu leyti gerist sagan á Grænlandi en lokauppgjörið fer fram á Íslandi, nánar tiltekið í orkuveri 4 við Svartsengi. Eins og menn vita, þá er þar notast við Ísopentan vökva til að knýja Ormathverflana, en hann er afar eldfimur. Í bókinni á sér þar stað mikill skotbardagi, sem endar með tilheyrandi sprengingum. Lestur bókarinnar er hin skemmtilegasta afþreying, og ekki var það til að skemma fyrir að undirritaður fékk þann vafasama heiður að vera ein af sögupersónunum, sem getið er um í bókinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024