Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hrun í innflutningi á flugvélaeldsneyti um Helguvíkurhöfn
Olíuskip kemur til Helguvíkur í vikunni. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 24. ágúst 2019 kl. 19:52

Hrun í innflutningi á flugvélaeldsneyti um Helguvíkurhöfn

Innflutningur á flugvélaeldsneyti um Helguvíkurhöfn hefur hrunið á þessu ári. Það sem af er ári hefur 37% minna magn eldsneytis farið um olíuhöfnina í Helguvík miðað við sama tíma í fyrra.

Allir eldsneytisflutningar fyrir Keflavíkurflugvöll fara um olíuhöfnina í Helguvík. Á mánudagskvöld kom þangað eldsneytisflutningaskipið Star Osprey með um 40.000 tonn af eldsneyti sem skipað er upp í höfninni og geymt á tönkum í Helguvík.

Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, segir að skipakomum í Helguvík hafi fækkað mikið í ár. Það sem af er ári hafa 19 fraktskip komið til hafnar í Helguvík en í fyrra voru þau 23 á sama tíma. Þetta eru mun færri skip en árið 2017, því þá höfðu 56 fraktskip komið til hafnar í Helguvík á fyrstu sjö mánuðum ársins. Þá var starfsemi kísilversins í Helguvík í fullum gangi. Þegar talað er um fraktskip þá er átt við öll flutningaskip.

Með minni innflutningi á eldsneyti hafa tekjur hafnarinnar einnig dregist saman. Þannig hafa tekjur vegna innflutnings á eldsneyti dregist saman um 30% það sem af er ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024