Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hrun á innviðum á Suðurnesjum í rafmagnsleysi
Aðveitustöð Landsnets á Fitjum í Reykjanesbæ þar sem bilunin varð sem orsakaði straumleysi á öllum Suðurnesjum.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 19. janúar 2023 kl. 06:35

Hrun á innviðum á Suðurnesjum í rafmagnsleysi

Ljóst er að tjón vegna rafmagnsleysisins á mánudag er verulegt. Þegar rafmagn fór af Suðurnesjum í febrúar 2015 var kostnaður vegna þess metinn á annað hundrað milljónir króna. Líklega er það vanmat og Landsnet telur töluna í lægri kantinum hvað tjón varðar. Kostnaður vegna raforkurofs getur hlaupið á hundruðum milljóna en Suðurnesjalína II myndi draga verulega úr áhættunni, að því er fram kom á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum síðasta haust þar sem rætt var um orkuöryggi á Suðurnesjum og mikilvægi Suðurnesjalínu II. Rafmagnsleysið 2015 varði í um tvær klukkustundir en á mánudag var straumlaust í um tvær og hálfa klukkustund.

Bilun í aðveitustöð Landsnets á Fitjum í Reykjanesbæ er orsök rafmagnsleysins. Í kjölfar þess kólnaði hratt í mörgum húsum þar sem þrýstingur fór af hitaveitu við rafmagnsleysið. Nokkrar klukkustundir tekur að keyra upp þrýsting á kerfum. Það er gert til að ekki verði tjón þegar þrýstingur kemst á að nýju. Ástæða rafmagnsleysis var rakin til bilunar í eldingarvara við tengivirki Landsnets á Fitjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafmagnsleysi hafði ekki áhrif á Keflavíkurflugvöll, sem var keyrður áfram á varaafli. Þá var Heilbrigðisstofnun Suðurnesja einnig keyrð á díselrafstöð, sem og gagnaver á Ásbrú.

„Það sem gerist einu sinni getur gerst aftur. Þetta staðfestir mikilvægi þess að hingað inn á Reykjanesskagann séu fleiri en ein flutningsleið fyrir rafmagn. Ef Suðurnesjalína 2 hefði verið til staðar hefði þetta ekki gerst. Sveitarfélagið Vogar og Landsnet verða að leysa úr þessum ágreiningi sínum strax. Áður en þetta gerist aftur,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í samtali við Víkurfréttir um rafmagnsleysið.

Íbúar á Suðurnesjum hafa lýst yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum með ástandið á innviðum og Suðurnesjalína 2 verið til umræðu. Það var ekki bara að rafmagn og hiti færi af Suðurnesjum. Netsamband hrundi einnig og sömu sögu er að setja af farsímakerfum. Íbúi í Suðurnesjabæ var harðorður vegna þess ástands. „Þarna erum við að tala um algert hrun á innviðum og meiriháttar öryggismál,“ skrifar hann í færslu á Facebook þar sem ástandið var til umfjöllunar.

Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, er einn þeirra sem lýstu áhyggjum af hruni fjarskiptakerfa í rafmagnsleysinu á mánudag. Hann segir að sambandsleysið veki upp fjölda spurninga og hann hafi sem forseti bæjarstjórnar í Suðurnesjabæ óskað eftir upplýsingum frá símafyrirtækjunum með tilliti til öryggis í framtíðinni.

Á meðan rafmagnsleysinu stóð hófst leikur á milli Íslands og Suður-Kóreu á HM í handknattleik. Það kann að hafa aukið álag á farsímakerfin að margir reyndu að horfa á leikinn í snjalltækjum sínum þar sem sjónvarpskerfin voru niðri vegna rafmagnsleysis.

„Á innan við tveim tímum var allt varaafl uppurið. Sími, net, kalt vatn og heitt vatn hætt að renna. Við erum komin aftur um 100 ár ef við lendum í þriggja tíma straumleysi. Hvort sem spennuvirki eða Suðurnesjalína er úti er alveg ljóst að varaleið er ekki fyrir hendi. Erum við sátt við það? Það var ekki einu sinni vont veður,“ skrifar einn netverji um ástandið.

Viðgerðarflokkur við aðveitustöðina. VF-myndir: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson