Hross gæða sér á golfvelli - og kirkjugarði
Vandamál hefur skapast á Kálfatjörn vegna ágangs hrossa frá aðliggjandi jörðum, Tíðargerði og Norðurkoti. Eigendum hrossanna hefur verið gert að fjarlægja þau vegna þess að þau hafa unnið töluverðar skemmdir á golfvellinum og kirkjugarðinum.Búfjárhald innan hreppsins er háð samþykki sveitarstjórnar. Ekki hefur verið sótt um leyfi til búfjárhalds á umræddum jörðum. Auk þess er sveitarstjórn heimilað að banna búfjárhald alfarið ef um ítrekuð brot gegn samþykktinni er að ræða. Vegna ítrekaðra brota hefur sveitastjóra verið falið að tilkynna eigendum Tíðargerðis og Norðurkots að búfjárhald á jörðunum verði nú takmarkað verulega eða bannað með öllu. Eigendum verður þó gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri í samræmi við andmælareglu stjórnsýslulaga áður en endanleg ákvörðun verður tekin.