Hringtorgið verði nefnt Aðaltorg
Forsvarsmenn Aðaltorgs í Reykjanesbæ hafa farið þess á leit við Vegagerðina að hringtorgið sem sameinar Aðalgötu í Reykjanesbæ, Reykjanesbraut og framtíðaruppbyggingarsvæði Isavia, innan flugvallarsvæðisins og á mörkum sveitarfélagamarka Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar, verði formlega nefnt Aðaltorg.
Ástæða þess að óskað er eftir því við Vegagerðina að nefna hringtorgið Aðaltorg er að með því móti verði nafn torgsins fest í sessi sem auðveldi aðgengi og upplýsingaflæði fyrir þá þjónustu sem byggð verður upp á Aðaltorgi til hagræðingar fyrir neytendur þeirrar þjónustu. Nafngiftin væri í samræmi við tengibrautina við Reykjanesbæ sem nefnist Aðalgata.
Talsverð uppbygging hefur verið á lóðinni Aðalgötu 60–62 en lóðin liggur að hringtorginu á mótum Aðalgötu og Reykjanesbrautar. Þar opnaði sjálfsafgreiðslustöð ÓB árið 2017 og nýverið opnaði þar Courtyard by Marriott hótel. Næstu áfangar uppbyggingar gera ráð fyrir fjölbreyttri verslun og þjónustu.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar, sem fékk erindið inn á sitt borð 18. desember síðastliðinn, tekur vel í erindið og samþykkir nafnið Aðaltorg fyrir sitt leyti.