Hringtorg ekki tileinkað Með blik í auga
Parísartorg áfram á dagskrá
Hún vakti mikla athygli fréttin um nýja hringtorgið við Þjóðbrautina sem vígt verður á Ljósanótt og var mest lesin á vef Víkurfrétta í gær.
Sitt sýnist hverjum og ekki voru nú allir bæjarbúar sáttir við þennan viðsnúning að tileinka torgið hátíðarsýningu Ljósanætur, og skal ekki undra.
Það voru hinsvegar aðstandendur sýningarinnar Með blik í auga; hanakambar, hárlakk og herðapúðar sem hér brugðu á leik og fengu til liðs við sig framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar og Víkurfréttir.
Það skal tekið fram að ekki stendur til að breyta áætlunum um Parísartog en það mun eins og áður hefur verið auglýst prýða listaverk eftir Stefán Karlsson.
Hanakambar, hárlakk og herðapúðar munu hins vegar halda sýnu striki og frumsýna miðvikudaginn 4. september og vonast aðstandendur til þess að sjá sem flesta í "eitís" stuði á Ljósanótt.