Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hringleið umhverfis Miðnesheiði
Þriðjudagur 22. febrúar 2005 kl. 09:49

Hringleið umhverfis Miðnesheiði

Hringleið mun opnast umhverfis Miðnesheiði með nýjum vegi, sem boðinn verður út í vor. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi. Með opnun vegarins fær almenningur aðgang að fögrum og sögufrægum stöðum í næsta nágrenni Leifsstöðvar á svæði sem í meira en hálfa öld hefur tilheyrt Varnarliðinu. 

Frá Sandgerði liggur nú átta kílómetra vegur að Stafnnesi, svæði sem fáir koma á. Þarna er meðal annars kirkjustaðurinn Hvalsnes, sem skartar einni fegurstu kirkju landsins, hlaðinni úr tilhöggnu grjóti. Þar þjónaði séra Hallgrímur Pétursson sálmaskáld um sjö ára skeið.

En mikið lengra nær vegurinn ekki. Við tekur hluti varnarsvæðisins en þar hafði Varnarliðið áður fjarskiptastöð og vildi ekki óviðkomandi bílaumferð. En nú styttist að þessi horfni heimur opnist landsmönnum á nýjan leik því Vegagerðin áformar lagningu vegar sem tengja mun Hafnir og Sandgerði. Um leið opnast hringvegur um Miðnesheiði.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði, sagði í viðtali við Stöð 2 að mestu máli skipti að tengja saman hina fornu staði: Hafnirnar, Garðinn, Sandgerði, Reykjanesbæ og Grindavík. Þarna á milli eru um níu kílómetrar en svo vel vill til að unnt verður að nýta hluta af vegi Varnarliðsins þarna þannig að ekki þarf að bæta við nema tveimur stuttum köflum, samtals um fimm kílómetra löngum, til að opna leiðina. Þar með mun opnast vegur að hinni fornu byggð Bátsendum sem eyðilagðist í stórflóði fyrir 200 árum.

Þótt vissulega náist fram stytting vegalengda milli byggðarlaga felst ávinningur af þessum vegi miklu fremur í þeim tækifærum sem hann skapar fyrir ferðaþjónustu í næsta nágrenni Keflavíkurflugvallar. Meðal annars eru þarna hinar sögufrægu hafnir, Básendi og Þórshöfn, sem báðar eru áhugaverðir staðir fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn að skoða.

Vísir.is
Mynd: Bláa punktalínan sýnir legu nýja vegarins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024