Hringasveppir og Keflvíkingur
sigurvegarar í Hacking Reykjanes. Hringrásarhagkerfið og ferðaþjónustan í sviðsljósinu
Verkefnið Hringasveppir bar sigur úr býtum á lausnamótinu Hacking Reykjanes auk þess sem verkefnið Keflvíkingur hlaut Hvatningarverðlaun fyrir hugmynd fyrir nærsamfélagið. Hacking Reykjanes er vettvangur fyrir nýjar hugmyndir sem leysa áskoranir svæðisins og fór fram dagana 17.–19. mars á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Hacking Hekla auk öflugra samstarfsaðila á svæðinu. Úrslit voru tilkynnt í beinu streymi frá Bláa lóninu síðasta laugardag.
Hacking Reykjanes er hluti af röð lausnamóta á landsbyggðunum sem framkvæmd eru í samstarfi við Hacking Hekla. Nú þegar hafa verið haldin Hacking Suðurland, Hacking Norðurland og Hacking Austurland sem fór fram síðasta haust. Hakkaþon eða lausnamót eins og þau kallast á íslensku, eru vettvangur þar sem þátttakendur skapa nýjar lausnir og efla sína frumkvöðlafærni. Um þrjátíu manns skráðu sig í lausnarmótið þar sem unnið var með fjórar áskoranir á Reykjanesi:
Orka og og jarðhiti
Hvernig getum við aukið verðmætasköpun með því að nýta orkuna á Reykjanesi?
Hringrásarhagkerfið og fullvinnsla afurða
Hvernig getum við aukið verðmætasköpun þvert á atvinnugreinar með aukinni fullvinnslu afurða til að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi?
Alþjóðlegur flugvöllur og þjónusta
Hvar liggja tækifærin í nýsköpun og aukinni þjónustu í tengslum við alþjóðaflugvöll, ferðaþjónustu og þjónustu við farþega og flug?
Sjávarútvegur og bláa hagkerfið
Hvernig getum við stuðlað að nýsköpun og þróun í sjávarútvegi og tengdum greinum?
Þátttakendur hófu leika á fimmtudagskvöldið í hugarflugi og teymismyndun. Á föstudeginum fengu þau leiðsögn reyndra sérfræðinga af öllu landinu sem skipuðu teymi mentora lausnamótsins auk þess sem þau fengu fræðslu í nýsköpunarferlinu og kynningu viðskiptatækifæra. Dómnefnd var skipuð Gunnhildi Erlu Vilbergsdóttur, formanni Eignarhaldsfélags Suðurnesja, Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur,framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans, Þór Sigfússyni, stofnanda Íslenska Sjávarklasans og Höllu Hrund Logadóttur, Orkumálastjóra.
Úrslit voru eftirfarandi:
Besta hugmyndin í Hacking Reykjanes
Hringasveppir
Justine Vanhalst & Alexandra Leeper.
Umsögn dómnefndar:
Hugmyndin um hringasveppina uppfyllti sérstaklega vel alla þá flokka sem leitað var eftir í Hakkaþoninu. Að mati dómnefndar var sýnt fram á með sannfærandi hætti hvernig ræktun hringrásasveppanna komi til með að nýta auðlindir svæðisins á sjálfbæran hátt og auka með þeim verðmætasköpun.Hringrásasveppirnir geta með góðu framtaki orðið nýr áfangastaður á Reykjanesinu fyrir Íslendinga og ferðamenn sem dómnefnd fannst einnig mjög spennandi og geta orðið hvatning til að það verði farið í að kortleggja alla hliðarstraumana á Reykjanesinu sem koma til greina til verðmætasköpunar.
Kynning þeirra Justine og Alexandra var framúrskarandi og trúverðug. Mikil þekking er til staðar í teyminu og augljós geta til að framkvæma hugmyndina.
Verðlaunin fyrir bestu hugmyndina eru 600.000 kr sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, HS Orka og Algalíf veita. Auk þess hlýtur sigurteymið deluxe gistingu á Hótel Keflavík fyrir tvo, þriggja rétta ævintýraferð kokksins fyrir tvo á Kef Restaurant, flot fyrir tvo í aurora floating í Kyrrðinni og vörur frá Geosilica og Zeto.
Hvatningarverðlaun
- Hugmynd fyrir nærsamfélagið
Keflvíkingur
Jón Einar Sverrisson
Hugmyndin felst í því að setja upp handverksbrugghús við höfnina í Keflavík sem yrði sambland af brugghúsi og upplifun. Þar með er kominn segull fyrir ferðamenn að gera sér erindi niður í miðbæ Keflavíkur.
Umsögn dómnefndar:
Hugmynd Jóns Einars að Keflvíkingi þótti að mati dómnefndar vera frábær fyrir nærumhverfið. Hugmyndin býður uppá mörg tækifæri á samstarfi og tengingar við hringrásarhagkerfið og ferðaþjónustu. Við erum viss um að hugmyndin geti náð mjög vel til íbúa í nærsamfélaginu, hvatt landsmenn utan þess til að heimsækja svæðið og verið skemmtilegur áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn og hvatt þá til að dvelja lengur á Reykjanesinu.
Jón Einar sýndi fram á áberandi mikla samstarfs- og rekstrarhugsun. Það gladdi okkur að sjá að hann gat nýtt sér Hakkaþonið til að koma inn með húsnæði en fá hér góðar hugmyndir og tengingar
til að þróa verkefnið áfram.
Hvatningarverðlaunin eru 200.000 kr. sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, HS Orka og Algalíf veita. Auk þess hlýtur Jón Einar deluxe gistingu á Hótel Keflavík fyrir tvo, þriggja rétta ævintýraferð kokksins á Kef Restaurant, einn tíma í Infrared Sauna Teppi hjá Kyrrðinni og vörur frá Zeto.
Hægt er að kynna sér verkefnin frekar inni á vettvangi lausnamótsins Hugmyndaþorpi:
https://xn--hugmyndaorp-pib.hackinghekla.is/is/
Einar Jón Sverrisson, hugmyndasmiður „Keflvíkings“ fékk hvatningarverðlaunin.