Hrina smáskjálfta við Sundhnúk í morgun
Hrina smáskjálfta gekk yfir umbrotasvæðið við Sundhnúka í morgun en hrinan virðist vera yfirstaðin. Á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir að allir skjálftarnir hafi verið undir einum að stærð.
„Vont veður er á Suðvesturlandi og því viðbúið að mælakerfi nemi ekki minnstu skjálftana,“ segir á síðunni.
Þá segir að hrinan hafi verið á þeim slóðum þar sem öll innskotin hafa átt upptök sín, skammt suður af Stóra Skógfelli. Hrinurnar í aðdraganda síðustu eldgosa hafa farið sífellt minnkandi af krafti og ákefð og því ekki útilokað að innskot sé að eiga sér stað.
Þá urðu nokkrir jarðskjálftar við Eldey í morgun. Stærsti skjálftinn náði stærðinni M3 og nokkrir mældust í kringum M2 að stærð.