Hressir krakkar úr Fjörheimum á Samféshátíð
Samféshátíðin 2005 fór fram helgina 4. -5. mars s.l. Alls fóru 45 hressir krakkar frá Fjörheimum. Lagt var af stað klukkan fimm á föstudaginn 4. mars og brunað beint á Samfésball. Vinsælustu hljómsveitir landsins spiluðu og má þar nefna Írafár, Í svörtum fötum, Jagúar, Á móti sól og fleiri. Mikið stuð var á ballinu enda 3500 krakkar frá öllu landinu að skemmta sér saman.
Eftir ballið var haldið í félagsmiðstöðina Miðberg þar sem Fjörheima-hópurinn gisti ásamt unglingum frá Truflaðri Tilveru í Garði og Skýjaborg Sandgerði. Flestir voru í miklu stuði eftir ballið og ekki alveg á því að fara að sofa strax, en þreytan seig fljótlega á og allir fóru í háttinn að lokum.
Klukkan átta á laugardagsmorguninn voru Garðbúarnir búnir að hvíla sig nóg og vöktu allt húsið með sér við misgóðar undirtektir ;) Eftir spjall, billjard, borðtennis og fleira var haldið á söngkeppni Samfés. Áður en að söngkeppninni kom var keppt í Íslandsmóti Sing-star og keppti Svala Dís, 8.bekk Njarðvíkurskóla fyrir hönd Fjörheima og stóð sig mjög vel. Klukkan 16 byrjaði svo söngkeppnin sjálf sem var mjög jöfn og spennandi en félagsmiðstöðin Selið stóð uppi sem sigurvegari með mjög frumlegt og skemmtilegt söngatriði.
Eftir keppnina var svo haldið heim á leið og heimkoma í Fjörheima upp úr 21.30 á laugardagskvöldið. Ferðin gekk vel og stóðu Fjörheima krakkar sig vel, eins og alltaf. ...
Fjörheimakrakkarnir létu taka mynd af sér með poppstjörnum Íslands... þessar myndir og ríflega 400 aðrar eru á fjorheimar.is